Siglingastofnun telur að búast megi við því að Landeyjahöfn verði mikið lokuð í vetur, þrátt fyrir dýpkun og aðrar aðgerðir sem ákveðið hefur verið að grípa til. Aðgerðirnar í vetur eru liður í því að læra á ströndina og finna varanlega lausn.
Ögmundur Jónasson samgönguráðherra féllst í gær á tillögur Siglingastofnunar um viðhaldsdýpkun í Landeyjahöfn í vetur. Áætlað er að þær kosti 180 milljónir kr., eins og gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjáraukalaga.
Leitað verður eftir samningum við Íslenska gámafélagið um dýpkun í vetur, í framhaldi af útboði. Dýpkunarskipið Scandia byrjar um miðjan desember. Það getur unnið í allt að tveggja metra öldu.