Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á sextugsaldri í 8 mánaða fangelsi fyrir að draga sér 17,7 milljónir króna úr tveimur sölukössum fyrir lottó og fótboltagetraunir. Maðurinn hafði umsjón með kössunum í umboði Íslenskrar getspár í Happahúsinu í Kringlunni.
Fjárdrátturinn átti sér stað á tímabilinu frá ágúst til október 2008. Fram kemur að maðurinn, sem ekki hefur hlotið dóma áður, hafi játað brotið. Hann var einnig dæmdur til að greiða Íslenskri getspá upphæðina, sem hann dró sér.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi einnig í dag tæplega fertuga konu í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að draga sér 936 þúsund krónur á tímabilinu frá ágúst 2006 til september 2007 þegar hún starfaði hjá Íbúðalánasjóði og var formaður starfsmannafélags sjóðsins.
Lét konan millifæra fé af reikningi starfsmannafélagsins inn á einkareikning sinn. Konan játaði brotið. Hún var einnig dæmd til að endurgreiða starfsmannafélaginu féð.