Þorsteinn Pálsson segist vera þeirrar skoðunar að utanríkisráðherra geti ekki skrifað undir samning við ESB um aðild nema að hann hafi fullvissu um að samningurinn njóti stuðnings ríkisstjórnarflokkanna. Hann segist hafa efasemdir um að núverandi ríkisstjórn geti lokið viðræðunum.
Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi um samningaviðræðurnar við ESB á fundi sjálfstæðismanna í Valhöll, en hann á sæti í samninganefnd sem vinnur að samningum við Evrópusambandið fyrir Íslands hönd.
Samkvæmt þingsályktunartillögu sem Alþingi samþykkti á síðasta ári er gert ráð fyrir að utanríkisráðherra skrifi undir samning við ESB þegar samningum lýkur og síðan á að leggja samninginn undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Alþingi er síðan ætlað að staðfesta samninginn, þ.e.a.s. ef hann er samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
Þorsteinn sagðist vera ósammála þessari aðferð. Hann sagðist ekki telja að hægt væri að ljúka samningaviðræðum nema að það lægi fyrir skýr þingmeirihluti fyrir samningnum. Bera ætti samninginn undir Alþingi og ef hann yrði samþykktur þar færi samningurinn í atkvæðagreiðslu hjá þjóðinni. Þjóðin hefði þá hið endanlega vald.
Þorsteinn sagðist vegna afstöðu ríkisstjórnarflokkanna til aðildar að ESB hafa efasemdir um að núverandi ríkisstjórnin gæti lokið við þessar viðræður. Það skipti miklu máli að það væri pólitískur vilji á bak við umsókn Íslands.
„Ég tel að þingmenn eigi ekki að fela utanríkisráðherra að skrifa undir samning við Evrópusambandið fyrr en þeir hafa sannfæringu fyrir því að þetta sé sá besti samningur sem hægt hefði verið að ná. Þingmenn sem heimila ráðherra að skrifa undir en ætla síðan að berjast gegn samningnum gera sig seka um pólitískt siðleysi,“ sagði Þorsteinn.