Ekki boðaður til yfirheyrslu

Jón Ásgeir Jóhannesson, kaupsýslumaður, segist ekki hafa verið boðaður í yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara í dag, enda snúi rannsókn embættisins ekki að honum persónulega.

Jón Ásgeir staðfesti við mbl.is að húsleit hafi verið framkvæmd í húsakynnum 101 Hótels við Hverfisgötu. Hótelið er í eigu Jóns Ásgeirs og eiginkonu hans, Ingibjörgu S. Pálmadóttur.

Sérstakur saksóknari réðst í húsleit á 10 mismunandi stöðum samtímis í dag og tók fjölda manns í yfirheyrslu. Aðgerðirnar í dag voru vegna fimm mála sem eru til rannsóknar hjá embættinu og tengjast lánveitingum Glitnis. Fram hefur komið að húsleitir hafa meðal annars verið gerðar á skrifstofu Pálma Haraldssonar, kaupsýslumanns og heimili Lárusar Welding, fyrrum forstjóra Glitnis. 

Rannsókn málsins er mjög umfangsmikil og hefur staðið yfir í langan tíma. Samkvæmt upplýsingum frá embætti sérstaks saksóknara eru eftirfarandi mál til rannsóknar:

  • Lánveitingar til félagsins Stíms ehf., sem tengdust viðskiptum með hlutabréf í Glitni og FL Group.
  • Lánveitingar til félagsins FS-38 ehf til kaupa á Aurum Holding Ltd. af Fons hf.
  • Lánveitingar til Stoða hf. (síðar Landic Properties), Baugs hf. og 101 Capital ehf. í tengslum við kaup á danska fasteignafélaginu Keops A/S.
  • Kaup fagfjárfestasjóðsins GLB FX, sem var í vörslu Glitnis, á skuldabréfi af Saga Capital en bréfið var útgefið af Stími. 
  • Kaup Glitnis á hlutabréfum í Tryggingamiðstöðinni.
Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert