Samtök um betri byggð fagna þeim áfangasigri sem náðist á fundi borgaryfirvalda og samgönguráðherra um að hætt var við byggingu samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýrinni.
„Loksins hafa borgaryfirvöld risið undir skyldu sinni að gæta hagsmuna okkar Reykvíkinga, með því að slá af borðinu áform samgönguyfirvalda um að byggja svokallaða samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni, sem auðvita var aldrei annað en ný flugstöð fyrir Vatnsmýrarflugvöllinn. Um leið lýsti meirihlutinn í borginni því yfir, að hann stefni að því að flytja innanlandsflugið úr Vatnsmýrinni.
Samtökum um betri byggð er kunnugt um að mikill stuðningur er við þessa niðurstöðu í öllum flokkum í borginni.
Viðsnúningurinn er ekki aðeins fólginn í því að stöðva byggingu óþarfa mannvirkis í miðju framtíðar byggingarlandi Reykvíkinga, heldur eru borgaryfirvöld að endurheimta skipulagsvaldið á borgarlandinu úr höndum samgönguyfirvalda sem áratugum saman hafa beitt borgina afarkostum í skipulagsmálum.
Vegna úthlutunarvalds síns á fé úr vegasjóði, til stofnbrautanna í borginni, hafa samgönguyfirvöld getað ráðið því sem þau vilja í borgarskipulaginu, og þvingað fram framkvæmdir til þess eins að festa flugið í sess. Má nefna endurbygging flugbrautanna árið 2002, þótt Reykvíkingar væru nýbúnir að kjósa flugvöllinn burt fyrir árslok 2016, færsla Hringbrautar í yfirborði en ekki í stokk, og síðast nýja flugstöð fyrir Vatnsmýrarflugvöllinn.
Loksins hafa borgaryfirvöld snúið blaðinu við og sagt hingað og ekki lengra og tekið til sín það valdi sem við Reykvíkingar höfum falið þeim, en samkvæmt stjórnsýslulögum er skipulagsvaldið er alfarið í höndum kjörinna fulltrúa sveitafélaga," segir meðal annars í fréttatilkynningu frá samtökunum.