Íslensk málnefnd hefur áhyggjur af mikilli notkun ensku í háskólastarfi hér á landi og segir m.a. að haldi þessi þróun áfram blasi við að verulega muni þá þrengt að íslenskri tungu í háskólasamfélaginu á Íslandi. Rektorar Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík fagna því að rætt sé um málið.
Í nýlegri ályktun málnefndar segir að í mörgum háskólagreinum sé mikill meirihluti námsefnis á ensku og svo hafi reyndar verið um langa hríð. Á síðustu árum hafi hlutur ensku farið mjög vaxandi og jafnframt dregið úr notkun námsefnis á öðrum tungumálum. Nú sé svo komið að um og yfir 90 af hundraði alls námsefnis í háskólum á Íslandi sé á ensku.
Þá segir í ályktun málnefndar að mjög hafi færst í vöxt að kennsla og verkefnavinna fari fram á ensku, bæði í grunnnámi og framhaldsnámi.
Í ályktuninni kemur fram að skólaárið 2009-2010 voru 250 af 2.250 námskeið við HÍ á ensku eða ríflega 11 af hundraði. Af þeim voru 120 í grunnnámi. Við Háskólann í Reykjavík voru alls sautján námsbrautir þar sem kennt var alfarið á ensku, m.a. meistaranámsbrautir í verkfræði, viðskiptafræði, tölvunarfræði og lýðheilsu. Við Háskólann á Akureyri er kennt á ensku í allmörgum námskeiðum í lögfræði og félagsvísindum og þar er líka verið boðið upp á meistaranám í tölvunarfræði á ensku. Nemendum Háskólans á Bifröst býðst BS-nám á íslensku og ensku.
Geta sagt það sem þeir vilja á íslensku
Í ályktuninni er bent á að nemendur með erlent ríkisfang eru rétt um sex af hundraði allra nemenda. Einhverjir þeirra tali íslensku og sumir beinlínis stundi nám í íslensku. Málnefndin telur að þetta veki spurningar um hvenær eðlilegt sé að leggja íslensku til hliðar og nota ensku sem vinnumál. „Ekki má gleyma því að á móðurmálinu getur málnotandinn sagt það sem hann vill en á erlendu máli segir hann aðeins það sem hann getur sagt,“ segir í ályktuninni.
Ályktunin fylgir með neðar í fréttinni.
Fagna umræðunni
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, segist fagna ályktun íslenskrar málnefndar þar sem kennsla á ensku í háskólum sé gerð að umtalsefni. Hún telur ekki að í HÍ sé of mikil áhersla lögð á kennslu á ensku en mikilvægt sé að ræða um stöðu íslenskrar tungu í háskólum.
Í HÍ er ekki kennt á ensku þegar kennari og allir nemendur eru íslenskumælandi.
Kristín segir að íslenska sé að sjálfsögðu tungumál skólans og sé notuð í langflestum tilfellum. Tiltekin meistaranámskeið séu alfarið kennd á ensku en engin námslína í grunnnámi sé kennd eingöngu á ensku. Í jarðvísindum geti erlendir nemendur hins vegar sótt nám í einn vetur þar sem kennt er á ensku.
„Auðvitað er íslenska tungumál skólans en hins vegar er það líka svo að það er ekki hjá því komist í umhverfi sem er alþjóðlegt að sumt sem ritað er sé á ensku og að stundum sé nauðsynlegt að grípa til enskrar tungu í kennslu,“ segir hún.
Oftast sé kennt á íslensku þótt erlendir nemar séu í kennslustundum. Stundum hafi kennarar, í samráði við nemendur, skipt yfir í ensku þegar erlendir nemendur eru í hópnum. Um þetta gildi ekki fastmótaðar reglur. Þá sé mjög algengt að erlendir nemar leggi sig eftir því að læra íslensku. Kristín segir ekkert í tillögum íslenskrar málnefndar stangast á við það sem nú sé stundað í Háskóla Íslands.
Grunnám þarf ekki öllu jöfnu að vera á íslensku
Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, fagnar einnig umræðu um stöðu íslensku í háskólasamfélaginu. Hann telur ekki að í HR sé of mikil áhersla lögð á kennslu á ensku en mikilvægt sé að ræða um stöðu íslenskrar tungu í háskólum.
Ari Kristinn segir sjálfsagt að háskólar marki sér málstefnu. Háskólar hafi skyldum að gegna við íslenskuna og enginn hafi áhuga á að ýta henni til hliðar. Hann minnir að uppbygging háskólastarfs hér á landi styrki íslenskuna. „Hinn valkosturinn hefur verið að sækja nám og störf erlendis og þar er auðvitað ekkert á íslensku.“ Um leið verði að hafa í huga að markmið háskólastarfs sé að veita góða menntun. „Og það er ekki gert nema í alþjóðlegu samfélagi, með því að fá þá bestu til að kenna, vera í samstarfi við þá bestu og með því að bera okkar rannsóknir og niðurstöður við það sem est gerist.“
Með því að birta rannsóknir og fræðigreinar á ensku þurfi að standast alþjóðleg viðmið og gæðakröfur. Jafnframt verði að leggja áherslu á að fræðimenn kynni sínar niðurstöður fyrir Íslendingum á íslensku, s.s. með fyrirlestrum.
Málnefndin leggur m.a. til að grunnám verði að öllu jöfnu á íslensku. Ari er ósammála þeirri tillögu. Hann bendir á að fengur sé að erlendum kennurum og að nemendur í grunnnámi eigi líka að njóta þess að sterkir erlendir fræðimenn komi í skemmri eða lengri tíma til að kenna hér. Þá væru ýmis tækifæri fólgin í því að laða erlenda nemendur til Íslands. „Við megum hvorki tapa íslenskunni né gæðum háskólastarfsins.“