Þorsteinn Pálsson segir að það muni veikja samningsstöðu okkar í viðræðum við ESB um aðild að sambandinu ef við kláruðum ekki að gera breytingar á hagssýslugerð. Hann minnti á að við hefðum nú þegar skuldbundið okkur til að gera þessar breytingar vegna aðildar okkar að EES.
Þorsteinn sagði þetta á fundi sjálfstæðismanna um Evrópumál í Valhöll.
Andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu hafa lagt mikla áherslu á að við megum ekki byrja að gera neinar breytingar á stjórnkerfi okkar fyrr en aðildarsamningur hafi verið samþykktur. Þau atriði sem um ræðir snerta einkum hagsýslugerð í landbúnaði og breytingar á tölvukerfi tollsins.
Þorsteinn sagði að atriði sem snúa að hagsýslugerð snérist um atriði sem við hefðu skuldbundið okkur til að gera hvort sem við færum inn í ESB eða ekki. Vegna aðildarumsóknarinnar ættum við núna kost á að fá fjármuni frá ESB til að klára þessa vinnu, en ástæðan fyrir því að við værum ekki búnir að gera þetta nú þegar væri sú að við hefðu frestað því að ráðast í þessa vinnu vegna kostnaðar.
„Það mun skipta okkur mjög miklu máli og styrkja okkar samningsstöðu, að við höfum sambærilegar hagtölur til að styðjast við í viðræðunum. Með því að klára ekki þetta verk þá erum við að vekja okkar eigin samningsstöðu,“ sagði Þorsteinn.
Þorsteinn fjallað líka um breytingar sem Íslendingar þyrftu að gera á stjórnkerfi sínu til að fá aðild að tollfrjálsum markaði Evrópusambandsins. Hann sagði mikinn ávinning af því fyrir Ísland að fá tollfrjálsan aðgang að markaði ESB.
„Tölvukerfi sem okkar tollinnheimta byggir á þarfnast endurskoðunar og við getum fengið aðstoð til að samræma þetta tölvukerfi evrópska kerfinu. Það myndi gagnast okkur hvort sem við myndum ganga inn eða ekki. Það tekur hátt í þrjú ár að gera þær breytingar. Ef niðurstaðan verður sú að við viljum ganga í ESB og teljum það vera okkur hagstætt þá væri afskaplega óskynsamlegt að fresta inngöngunni vegna þess að við ætluðum ekki að byrja á því að breyta tölvukerfum eins og tollurinn notar fyrr en búið væri að taka ákvörðun,“ sagði Þorsteinn.