Alþingi afgreiddi í kvöld lagafrumvarp, sem Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, lagði fram í dag og ætlað er að bregðast við tveimur dómum áfrýjunardómstóls í Frakklandi í byrjun nóvember.
Frumvarpið, sem var um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, var samþykkt með 19 samhljóða atkvæðum þeirra þingmanna stjórnarflokkanna, sem voru viðstaddir þingfundinn. 14 þingmenn stjórnarandstöðunnar sátu hjá í atkvæðagreiðslunni en 30 þingmenn voru fjarverandi.
Frumvarpið var lagt fram þar sem frönsku dómarnir voru taldir hafa skapað ákveðna réttaróvissu, sem lýtur að upphafi slitameðferðar fjármálafyrirtækja.
Fram kom í máli Árna Páls, þegar hann mælti fyrir frumvarpinu í dag, að um sé að ræða tvo samhljóða dóma í málum sem snérust um kröfu Landsbankans til að fá kyrrsetningar ákveðinna kröfuhafa felldar niður. Bendi niðurstaða franska dómstólsins til þess, að tilvísun til riftunarreglna laga um gjaldþrotaskipti sé ekki orðuð með nægilega skýrum hætti í gildandi lögum.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar féllust á að greiða fyrir afgreiðslu málsins í dag og því fór frumvarpið hratt í gegnum þingið. En Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að upphaflegir dómar í Frakklandi hefðu legið fyrir í júní 2009 og Landsbankinn ákvað að áfrýja málinu í júlí það ár. Því hefði vitneskja um að ákveðin réttaróvissa kynni að vera upp legið fyrir síðan þá.
Sagði Eygló, að lögum um fjármálafyrirtæki hefði verið breytt sjö sinnum frá því bankarnir féllu haustið 2008 og því hefði verið mjög einfalt mál að setja inn þessar breytingar, sem nú væri verið að gera, fyrr og þingmenn hefðu þá getað gefið sér meiri tíma og haft textann skýrari.