Bílstjóra áætlunarbíls, sem fór frá Reykjavíku til Akureyrar á sunnudag, brá heldur í brún þegar hann ætlaði að hreinsa bílinn eftir ferðina. Í öftustu sætunum hafði verið sturtað úr flögupokum og einnig hafði einhver gert þarfir sínar á gólf bílsins, að því er kemur fram á fréttavefnum Feyki.
Þar kemur fram að rútan fór í hefðbundna áætlunarferð frá Reykjavík til Akureyrar kl. 15. Ekki voru margir farþegar frá Reykjavík en á Blöndósi komu nokkrir krakkar inn og völdu sér sæti aftarlega eða aftast í rútunni. Í Varmahlíð bættust viðf leiri krakkar sem einnig völdu sér sæti aftarlega og var þeim hleypt út við heimavist Menntaskólans á Akureyri.
Feykir segir, að hvorki bílstjórinn né aðstoðarstúlka hans hefðu haft nein afskipti af krökkunum enda hafi allt virst í ró og spekt og fram til þessa hafi umgengni krakkanna verið til sóma.
„Fyrirtækið skorar hér með á þá sem urðu vitni að þessum atburði að segja til þeirra því ef svona aðilar komast upp með svona lagað án þess að fá tiltal þá gangast þeir enn frekar upp í svona heimskulegum gjörðum og á meðan að þau upplýsa ekki um gerandann í svona löguðu þá að sjálfsögðu liggja allir undir grun," hefur Feykir eftir Óskari Stefánssyni hjá Bílum og fólki ehf.