Verðið á vörukörfu ASÍ hefur lækkað umtalsvert í Hagkaupum og Nóatúni frá því í sumar en á sama tíma staðið óbreytt í lágvöruverslunarkeðjunum Bónus og Krónunni. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýjustu verðmælingu verðlagseftirlits ASÍ á almennri vörukörfu í helstu matvöruverslunarkeðjunum.
Verðlækkun í Hagkaupum 8% og 5% í Nóatúni
Milli verðmælinga verðlagseftirlitsins í júní sl. og nýjustu mælinga nú í nóvember lækkaði vörukarfan í Hagkaupum um 8% og Nóatúni um 5%. Á sama tímabili hækkaði verðið á vörukörfunni hjá Samkaupum Úrval um 3,5%, Nettó um 3%, Kosti um 1% og Samkaupum Strax um 1%. Í Bónus, Krónunni, 10-11, og 11-11 stóð verð vörukörfunnar nánast í stað á milli mælinga, samkvæmt fréttatilkynningu frá ASÍ.
Nettó hækkaði mest af lágvöruverslunum
Í lágvöruverslununum hækkaði verð vörukörfunnar mest hjá Nettó um 3,1% sem skýrist að stærstum hluta af hækkun á brauði og kornvörum (9,2%), ýmsum matvörum um (8,4%) og grænmeti og ávöxtum um (7,3%), en á móti vegur lækkun á hreinlætis- og snyrtivörum (8,6%). Í Kosti hækkaði vörukarfan um 1,4% sem skýrist að mestu leyti af hækkun á kjötvörum (6,7%) en á móti kemur lækkun á grænmeti og ávöxtum (5,4%). Lítil sem engin breyting varð á heildarverði vörukörfunnar hjá Bónus og Krónunni.
Í stórmörkuðum og klukkubúðum lækkaði verð vörukörfunnar í Hagkaupum og Nóatúni. Verð körfunnar lækkaði um 8,2% hjá Hagkaupum og 5,1% hjá Nóatúni. Athygli vekur að nánast allir vöruflokkar körfunnar lækka hjá báðum þessum verslunarkeðjum. Vörukarfan hækkaði hjá Samkaupum Úrval um 3,5% og Samkaupum Strax um 1,1% en hækkuðu nær allir vöruflokkar. Verð vörukörfunnar stóð nánast í stað á milli verðmælinga í 10-11og 11-11.