Húsleit vegna Glitnis

Húsleit var gerð á nokkrum stöðum í morgun vegna rannsóknar embættis sérstaks saksóknar á starfsemi Glitnis banka fyrir hrun. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, staðfestir við mbl.is að húsleitir hafi verið gerðar í morgun á vegum embættisins og þær hafi verið á fleiri stöðum en á höfuðborgarsvæðinu.

Hann segir að lítið sé hægt að segja um rannsóknina að svo stöddu en að nánar verði greint frá henni síðar í dag. Líklegt er talið að rannsóknin tengist svonefndu Stím-máli, sem mjög hefur verið fjallað um.

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, segist ekki vita að hverjum rannsókn embættis sérstaks saksóknara beinist en slitastjórnin hefur beint málum tengdum Glitni til embættisins.

Að sögn Útvarpsins var leitað á allt að 10 stöðum  þar á meðal á skrifstofum og heimilum fyrrum viðskiptavina bankans. Þá hafi 9 menn verið teknir til yfirheyrslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert