Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, ítrekar í dag þá skoðun sína, að hægt sé að flýta aðildarviðræðunum við Evrópusambandið án þess að hverfa frá því markmiði að fá niðurstöðu í grundvallaratriði, sem margir vilji fá svör við áður en þeir gera upp hug sinn gagnvart ESB.
Ögmundur fjallar á vef sínum um ummæli sem vefurinn EUObserver hafði í gær eftir Angelu Filota, talskonu stækkunarskrifstofu framkvæmdatjórnar Evrópusambandsins. Þar sagði Filota, að almennar reglur ESB væru mjög skýrar og þær sömu um öll umsóknarríki. „Hvert og eitt ríki gengur inn þegar það er 100 prósent tilbúið til þess."
Um þetta segir Ögmundur: „Enginn þarf að velkjast í vafa um hvað þetta þýðir. Þetta þýðir að ekkert ríki fær aðild nema það sé fullstaðlað. Var einhver að þræta fyrir að krafist væri aðlögunar? Hér á landi hefur því verið mótmælt að aðlögun ætti sér stað.
Þegar ég nú viðra þá skoðun að flýta beri viðræðum við ESB og fá niðurstöður í stóru álitamálin þá er þessu mætt með fullkomnum þvergirðingshætti í Brussel eins og framangreind ummæli sýna. Ég ætla ekki að kalla þetta hroka vegna þess að þetta er eflaust ekki illa meint. Þetta eru einfaldlega viðbrögð steinrunnins kerfis. Steingervingum kerfismennskunnar finnst allt erfitt, óyfirstíganlegt, ógerlegt," segir Ögmundur meðal annars.