Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú hvernig maður komst yfir vel á annað þúsund greiðslukortanúmer, mestmegnis íslensk en einnig erlend númer, sem hann misnotaði síðan til að svíkja út fé. Maðurinn, sem er um tvítugt, var handtekinn um þar síðustu helgi og hefur áður komið við sögu lögreglu.
Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að greiðslukortaupplýsingarnar hafi fundist í tölvu sem er í eigu mannsins. Nú sé verið að rannsaka hvernig hann hafi komist yfir númerin. Talið er að hann hafi verið einn að verki og þá segir Friðrik aðspurður að fjárhæðir í málinu séu óverulegar.
Grunaður um innbrot
Lögreglan í Borgarnesi handtók manninn 7. nóvember sl. í tengslum við önnur afbrot, en hann er m.a. grunaður um fjölda innbrota. Hann var í framhaldinu færður til Reykjavíkur til skýrslutöku og var honum sleppt að henni lokinni.
Að sögn Friðriks hefur maðurinn játað að hluta að hafa svikið út fé með þessum hætti. Enginn annar hefur verið handtekinn í tengslum við rannsóknina sem er á byrjunarstigi.
Friðrik segir að málið snerti flest ef ekki öll greiðslukortafyrirtæki hér á landi. Lögreglan hafi haft samband við þau í tengslum við rannsóknina og þau hafi síðan látið viðkomandi kortaeigendur vita og þeir fengið ný greiðslukort.
Þá segir Friðrik að nokkrir kortaeigendur, sem hafi orðið varir við undarlegar færslur á sínum greiðslukortayfirlitum, hafi verið búnir að leggja fram kæru af fyrra bragði.