Talið að margir leiti aðstoðar

Fjölmargir þurfa á aðstoð að halda um jólin
Fjölmargir þurfa á aðstoð að halda um jólin mbl.is/Golli

Hjálparstofnanir búa sig undir að mun fleiri leiti jólaaðstoðar í ár en í fyrra. Þá fengu um 4.000 fjölskyldur slíka aðstoð. Hjálparstarf kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Rauði krossinn í Reykjavík og Hjálpræðisherinn boðuðu í dag til blaðamannafundar til að kynna jólaaðstoðina 2010. 

Þeir sem þarfnast jólaaðstoðar þurfa að sækja um hana hjá fyrrgreindum samtökum. Nánari upplýsingar er að finna á Facebook síðunni "Jólaaðstoð 2010". Með samstarfinu er ætlunin að spara fólki sporin. Búið er að leita til fjölda fyrirtækja um að leggja verkefninu lið. Elín Hirst, talsmaður Jólaaðstoðar 2010, sagði að jólaaðstoðin hafi hingað til notið mikils velvilja fyrirtækja í landinu.

Rauði krossinn hefur útvegað sjálfboðaliða til starfa og í fyrra unnu um 400 sjálfboðaliðar við afhendinguna. Enn er þörf á fleiri sjálfboðaliðum fyrir þessi jól. Elín sagði að nú sé búist við að mun fleiri leiti Jólaaðstoðar en í fyrra. Áætlað er að það geti orðið 4.500 fjölskyldur eða fleiri.

Jólaaðstoðin verður með afgreiðslu í Skútuvogi 3 í Reykjavík, gengið inn Barkarvogsmegin. Eigendur húsnæðisins, Karl Steingrímsson og Aron Pétur Karlsson, lánuðu það fyrir starfsemina. Einnig verður Jólaaðstoðin 2010 með afgreiðslur á Akureyri, Akranesi, í Grindavík og í Keflavík.

Í húsnæðinu í Reykjavík eru hillurnar tómar í dag en Elín kvaðst vona að hægt yrði að fylla þær fyrir jólin. 

Hjálpræðisherinn á Íslandi er nú með í Jólaaðstoðinni í fyrsta skipti. Sigurður Ingimarsson sagði að Hjálpræðisherinn hafi lengi veitt fólki aðstoð og undanfarnar þrjár vikur hafi straumurinn verið stanslaus á hverjum degi. Hjálpræðisherinn hafi ekki bolmagn til að sinna því öllu. Hann lýsti mikilli ánægju sinni með samstarfið um Jólaaðstoðina. 

Frá blaðamannafundinum í dag
Frá blaðamannafundinum í dag mbl.is/Árni Sæberg
Jólaaðstoðin verður með afgreiðslu í Skútuvogi 3 í Reykjavík
Jólaaðstoðin verður með afgreiðslu í Skútuvogi 3 í Reykjavík mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert