Verðtrygging í nefnd

Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason mbl.is/Árni Sæberg

Efnahags- og viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason, hefur skipað nefnd sem mun kanna forsendur verðtryggingar á Íslandi. Nefndin er skipuð í kjölfar þingsályktunar frá 16. júní sl. og mun meðal annars meta kosti og galla þess að draga úr vægi verðtryggingar í íslensku fjármálakerfi, án þess að fjármálastöðugleika sé ógnað.

Nefndin mun skoða á heildstæðan hátt áhrif verðtryggingar á lántaka og lánveitendur sem og áhrif hennar á virkni hagstjórnar og efnahagslegan stöðugleika almennt. Ráðherra hefur skipað Eygló Harðardóttur, alþingismann, formann nefndarinnar.

Í nefndinni eiga sæti auk Eyglóar, Arinbjörn Sigurgeirsson, tilnefndur af þingflokki Hreyfingarinnar, Björn Rúnar Guðmundsson, tilnefndur af efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Hrólfur Ölvisson, tilnefndur af þingflokki Framsóknarflokksins, Ingvar H. Ragnarsson, tilnefndur af fjármálaráðuneyti, Lilja Mósesdóttir, tilnefnd af þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Pétur H. Blöndal, tilnefndur af þingflokki Sjálfstæðisflokksins, og Vilhjálmur Þorsteinsson, tilnefndur af þingflokki Samfylkingarinnar.

Jafnframt var óskað eftir föstum áheyrnarfulltrúa frá Seðlabankanum, sem tilnefndi Ásgeir Daníelsson. Starfsmaður nefndarinnar er Steindór Grétar Jónsson, sérfræðingur hjá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Nefndinni er ætlað að skila ráðherra áliti sínu og tillögum í lok árs.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka