1100 manns vilja utanþingsstjórn

Ásta Hafberg, Rakel Sigurgeirsdóttir og Þórarinn Einarsson á fundi með …
Ásta Hafberg, Rakel Sigurgeirsdóttir og Þórarinn Einarsson á fundi með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands.

 Um 1100 manns hafa skrifað undir áskorun til forseta Íslands um að skipa utanþingsstjórn til að takast á við efnahagskreppuna. Forsvarsmenn undirskriftarsöfnunarinnar segja að Alþingi njóti aðeins traust 10% þjóðarinnar og þingflokkarnir hafi glatað trausti kjósenda.

 Í tilkynningunni kemur fram að í fyrstu tunnumótmælanna óskuðu þau eftir fundi með forseta Íslands til að ræða um ófremdarástandið í samfélaginu og viðbrögð almennings víða um land við því. Fundurinn fór fram á Bessastöðum þriðjudaginn 12. október sl. Þrjú þeirra sem höfðu staðið að tunnumótmælum vikuna áður sátu þennan fund. Þau voru: Ásta Hafberg, Rakel Sigurgeirsdóttir og Þórarinn Einarsson.

„Tilgangur okkar var að velta upp hugmyndum að lausnum. Á fundinum fræddi forsetinn okkur um sögu stjórnmála á Íslandi svo og valdsvið forseta. Í framhaldi af fundinum komust konurnar í hópnum að þeirri niðurstöðu að við núverandi aðstæður væri aðeins ein leið fær til að binda endi á það niðurskurðar- og upplausnarástand sem við búum við í dag.

Árið 1942 skipaði Sveinn Björnsson, þáverandi ríkisstjóri, utanþingsstjórn þar sem ekki tókst að mynda starfshæfa ríkisstjórn. Ríkisstjórn sem ræður ekki við það verkefni að vinna að almannahag getur tæplega talist starfshæf. Alþingi sem nýtur 10% trausts þjóðarinnar hefur tæplega á að skipa einstaklingum sem geta myndað saman þjóðstjórn. Þingflokkar sem sitja á þingi sem hefur glatað trausti kjósenda geta varla vænst þess að kosningar breyti miklu.

Það er því mat aðstandenda tunnumótmælanna að utanþingsstjórn sé raunhæf leið við núverandi stjórnmálakreppu. Tveir úr þeirra hópi hafa hrundið af stað undirskriftarsöfnun með áskorun á forseta Íslands að skipa slíka nú þegar. Helsta verkefni hennar yrði að takast á við efnahagskreppuna sem hefur verið viðvarandi hér frá bankahruni með skelfilegum afleiðingum fyrir almenning.“ Nú þegar hafa rúmlega 1100 manns skrifað undir þessa áskorun, á vefnum utanthingsstjorn.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert