Brotist var inn í verslun Kjalfells á Blönduósi í nótt og þaðan stolið um tug fartölva, að verðmæti um 1,5 milljón króna. Á upptöku í öryggismyndavélum sést hvernig þjófur forðast sjónsvið tveggja myndavéla og snýr þeim upp í loft áður en hann og hugsanlegir vitorðsmenn, láta greipar sópa. Einnig var brotist inn í Samkaup á Blönduósi en ekki liggur fyrir hverju var stolið þar.
Kristján Blöndal, eigandi Kjalfells, segir greinilegt að þjófurinn eða þjófarnir hafi verið búnir að kanna aðstæður áður en þeir létu til skara skríða.
Innbrotið var framið klukkan tíu mínútur yfir eitt í nótt. Hafi einhver séð til mannaferða í grennd við Kjalfell á þessum tíma er sá hinn sami beðinn um að koma upplýsingum til lögreglu.
Þjófarnir spenntu upp tryggilega læsta útihurð. Þriggja punkta læsingin hélt en dyrastafurinn lét á hinn bóginn undan.
Í búðinni eru tvær öryggismyndavélar sem Kristján hafði komið fyrir. Á þeim sést þegar þjófur kemur inn í búðina en hann gætti vel að því að andlit hans sæist ekki. „Hann skríður inn og í hornið þar sem myndavélin er. Þar stendur gæinn upp upp og ýtir myndavélinni beint upp í loft. Svo hleypur hann inn í annað horn, skýst svo á bak við þar sem er önnur myndavél, heldur fyrir andlitið á meðan og ýtir henni líka upp í loft,“ segir Kristján.
Kjalfell er tryggt fyrir tjóninu en Kristján segir sárast að viðskiptavinir sem höfðu komið með tölvur í viðgerð sjái nú á eftir mikilvægum gögnum sem í þeim voru.
Ekki var þjófavarnarkerfi í búðinni. „Ég er búin að margspyrja tryggingarnar síðastliðin ár hvort þeir vilji lækka tryggingarnar hjá mér en hef alltaf fengið neitun. Því hef ég ekki sett upp þjófavarnarkerfi,“ segir Kristján. Hann segir ljóst að þjófarnir hafi verið inni í búðinni í stutta stund og unnið í miklum flýti.
Lögreglan á Blönduósi rannsakar nú málið.