Enginn er í haldi lögreglu vegna rannsóknar embættis sérstaks saksóknara á málum tengdum Glitni fyrir hrun. Að sögn Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara stóðu yfirheyrslur yfir til miðnættis í gær og var öllum sleppt að þeim loknum. Ekki verður farið fram á gæsluvarðhaldsúrskurð yfir þeim sem voru yfirheyrðir og enginn var handtekinn.
Að sögn Ólafs var húsleitum lokið í nótt en þær voru flestar á höfuðborgarsvæðinu. Einnig var leitað á Akureyri og í Rangárvallasýslu.
Rannsókn málsins er umfangsmikil og verður haldið áfram. Í framhaldinu verður metið hvort leitað verður til lögregluyfirvalda í öðrum ríkjum eftir aðstoð en ekkert slíkt er í gangi nú.
Í tilkynningu sem embætti sérstaks saksóknara sendi frá sér vegna málsins í gær kom fram að húsleitir og yfirheyrslurnar hefðu verið framkvæmdar vegna
fimm mála: 1) Lánveitingar til félagsins Stím hf. 2) Lánveitingar til
félagsins FS 38 ehf. vegna kaupa á Aurum Holding, en skaðabótamál sem
slitastjórn Glitnis hefur höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur
fyrrverandi eigendum og stjórnendum Glitnis tengist sama máli. Rétt er
að benda á að skaðabótamálið sem slitastjórnin hefur höfðað gegn sama
hópi fyrir dómstóli í New York er síðan aðskilið. 3) Kaup Glitnis á
hlutabréfum í Tryggingamiðstöðinni. 4) Kaup fjárfestingasjóðs á vegum
Glitnis á skuldabréfi útgefnu af Stím. 5) Lánveitingar Glitnis til
Landic Property, Baugs og 101 Capital vegna kaupa á danska
fasteignafélaginu Keops.