Þrátt fyrir yfirlýsingar um hið gagnstæða skilyrðir Evrópusambandið aðild Íslands að ESB því að samið verði um Icesave.
Morgunblaðið hefur undir höndum bréf, sem Pat the Cope Gallagher, þingmaður Evrópuþingsins og formaður sameiginlegrar þingmannanefndar Evrópuþingmanna og íslenskra þingmanna sem fylgist með umsóknar- og aðildarferlinu, hefur ritað til Ivailo Kalfin, varaformanns fjárlaganefndar ESB, þar sem þetta kemur fram með skýrum hætti.
Í bréfinu, sem dagsett er 9. nóvember sl., segir m.a.: „Ég skrifa þér með hliðsjón af skýrslu þinni um lánastarfsemi Fjárfestingabanka Evrópu . . . Mér skilst að ráð Evrópusambandsins (the Council) hafi bætt við í texta sinn neðanmálsgrein með sérstakri skírskotun til Íslands og skyldu landsins til þess að uppfylla EES-samninginn. Svo virðist sem afleiðing slíkrar skírskotunar sé sú, að Ísland sé eini umsækjandinn eða verðandi umsækjandi þar sem þess er krafist að landið uppfylli aukin skilyrði, til þess að geta átt kost á lánveitingum frá Fjárfestingabanka Evrópu.“
Síðar segir í bréfi Gallaghers að það séu útbreiddar áhyggjur að með þessu sé ráð Evrópusambandsins að tengja aðildarumsókn Íslands að ESB við lausn Icesave-deilunnar.