Frávísunarkröfu í Exeter-máli hafnað

Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur hafnaði í dag frávísunarkröfu vegna Exeter-málsins svokallaða. Voru það Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs, Ragnar Zophanías Guðjónsson, fyrrverandi forstjóri Byrs og Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi forstjóri MP Banka, sem kröfðust þess að málinu væri vísað frá.

Exeter-málið snýst um 1,1 milljarðs króna lán sem Byr sparisjóður veitti einkahlutafélaginu Exeter Holding til þess að kaupa stofnfjárbréf í Byr á yfirverði. Seljendur bréfanna voru MP Banki, Ragnar Z. og Jón Þorsteinn. Viðskiptin fóru fram haustið 2008, en málatilbúnaður ákæruvaldsins snýr aðallega að meintum umboðssvikum. 

Að sögn Björns Þorvaldssonar, saksóknara hjá embætti sérstaks saksóknara, var krafa þremenninganna þríþætt. Í fyrsta lagi töldu þeir að embætti sérstaks saksóknara hefði ekki heimild til rannsóknar á málinu. Í öðru lagi að málið væri ekki nægjanlega rannsakað og í þriðja lagi aðkoma Evu Joly, ráðgjafa sérstaks saksóknara, að málinu.

Í frétt Morgunblaðsins frá því í byrjun nóvember kom fram að við munnlegan málflutning í Exeter-málinu hafi lögmaður Styrmis Þórs farið yfir ráðningu Evu Joly sem ráðgjafa sérstaks saksóknara við rannsókn mála og það hefði haft áhrif á sjálfstæði dómstóla. Vísaði lögmaðurinn þar meðal annars í ummæli Joly í viðtölum, þar sem hún lýsti vonbrigðum með niðurstöður dómstóla í öðrum og ótengdum efnahagsbrotum.

Björn segir að það að dómari vísaði hafnaði frávísunarkröfu þremenninganna frá þýði að málið haldi áfram fyrir dómi en ekki liggi fyrir hvenær aðalmeðferð þess hefst. Enn sé tekist á um afhendingu gagna frá Byr og það verður tekið fyrir í byrjun desember. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert