„Það er augljóst að íslensk stjórnvöld hægðu sjálf á ferlinu. Ég hygg að í kjölfar Icesave-deilunnar og þess að skoðanakannanir fóru að sýna mikla andstöðu við aðild hér innanlands hafi stjórnvöld ákveðið að kæla málið.“
Þetta segir Eiríkur Bergmann Einarsson, forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst, um áhrif Icesave-deilunnar á aðildarferlið.
„Það stóð til að aðildarumsóknin yrði lögð fram í desember árið 2009 og svo í mars á þessu ári. Deilan um Icesave skýrir andstöðuna við aðild að ESB að talsverðu leyti og eftir að hún komst í hámæli var farið í að kæla niður aðildarferlið,“ segir Eiríkur.
Í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag vísar Ögmundur Jónasson dómsmálaráðherra á bug gagnrýni á þá hugmynd hans að flýta aðildarferlinu þannig að hægt verði að afgreiða aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir nokkra mánuði. Þá sé forgangsröðunin röng.