Breski sjónvarpskokkurinn Heston Blumenthal var mjög ánægður með heimsókn sína til Vestfjarða, að sögn fréttavefjar Bæjarins besta í dag. Heston fór á steinbítsveiðar frá Suðureyri og matreiddi síðan fiskinn í Tjöruhúsinu í Neðstakaupstað á Ísafirði. Um kvöldið var svo haldið á víkingablót.
Stefnt er að því að sýna sjónvarpsþátt um heimsóknina á Channel 4 í Bretlandi snemma á næsta ári. Heston Blumenthal er eigandi veitingastaðarins The Fat Duck, eða Feita öndin, sem var valinn besti veitingastaðurinn í Bretlandi af The Good Food Guide árin 2007 og 2009. Hann hefur gefið út fjölda matreiðslubóka og verið með nokkra sjónvarpsþætti og er nú með þáttaröð á Channel 4.