Námsmenn mótmæla

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra ræddi við nemendur á Austurvelli.
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra ræddi við nemendur á Austurvelli. mbl.is/Eggert

Nokkrir tugir framhaldsskólanema eru mættir á Austurvöll en þar er niðurskurði í menntamálum mótmælt. Mótmælin hófust klukkan 11:30 og er ætlunin að þau standi til klukkan 14 er þingfundur hefst á Alþingi.

Er það Samband íslenskra framhaldsskólanema sem boðaði til mótmælanna

Segir á Fésbókarsíðu mótmælanna að mótstaða nema verði sýnd á sjónrænan hátt og eru námsmenn  beðnir um að koma í málningargöllum.

„Löðrandi í gerviblóði viljum við koma skilaboðum á framfæri: „Hættið að skera okkur niður!”, segir á Fésbókarsíðu mótmælanna.

„Í dag er raunveruleikinn sá að ein helsta stoð þekkingarveitu og fræðslu stendur frammi fyrir örlagaríkum tímum. Allt of lengi hafa þessar einu mikilvægustu stofnanir landsins fengið sæti neðarlega í forgangsröðun yfirvalda.
Á meðan að viðskiptaöfl landsins blómstruðu og hinn svo kallaði hagvöxtur náði hámarki var áherslan langt frá því að vera út frá langtíma sjónarmiðum, heldur voru skammtímalausnir látnar ganga fyrir, fjárfestingar þar sem gróðinn var fljótlega sjáanlegur og leit best út á blaði.
Krafan á menntakerfið var þrátt fyrir svigrúm í fjármunum, að hagkvæmnin væri algjör og að ekki yrði krónu umfram eytt. Þrátt fyrir getu var áherslan ekki lögð á að tryggja arfleið menntakerfisins og að gera vel við þá sem að því stóðu. Laun kennara og fagfólks héldust enn í lágmarki, skólabyggingar nýttar langt fram yfir skynsemismörk, gríðarlegum fjölda nemenda var komið í hverja kennslustund og sökum skorts á ráðgjöfum, sérfræðingum var búist við því að í starfsviði kennara fælist ekki aðeins í fræðslu, heldur einnig náms-, sálfræði- og félagsráðgjöf. Sem orsakaðist í því að stuðningskerfi við nemendur er afar hrörlegt og illa launaðir kennarar látnir vinna langt út fyrir starfsvið.

Sem afleiðing stendur menntaskólakerfi okkar nú á brauðfótum en það sem enn alvarlegar er að nú stendur það frammi fyrir enn frekari niðurskurði. Þar sem ekkert kjöt er lengur á beinunum er laust fyrir að hoggið verði í grunnstoðir okkar framhaldsskólakerfis ef úr einhverju á að draga. Ljóst er að laun kennara verða ekki lækkuð frekar, skólastofurnar rúma ekki fleiri nemendur, eftirspurn eftir námi verður ekki svarað og brottfall úr framhaldsskólum okkar er með því mesta sem fyrirfinnst í sambærilegum þjóðum. Og nú þegar atvinnuhorfur eru ekki með sama móti og á bestu tímum verður það ekki skýrar að þetta er einhver mikilvægast úrlausn við félagslegum vandamálum tengdu aðgerðarleysi ungs fólks. Hættan er gríðarleg að einstaklingur sem ekki kemst í framhaldsskóla, sökum pláss leysi eða bágrar fjárhagstöðu hefur um fá önnur úrræði að velja.

Í menntun felst máttur sem ekki fæst með öðru móti, vel upplýst og menntuð þjóð er líklegri en nokkur önnur til að vinna bug á efnahagslægðum og félagslegum vandamálum," segir í tilkynningu frá SÍF.
 

Námsmenn eru á Austurvelli og mótmæla
Námsmenn eru á Austurvelli og mótmæla mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka