Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum, Elliði Vignisson, hefur sent landlækni bréf þar sem farið er fram á að hann láti tafarlaust fara fram öryggisúttekt fyrir Vestmannaeyjar í tengslum við boðaðan niðurskurð á Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja.
„Þar kemur m. a. fram að við Eyjamenn erum verulega uggandi vegna yfirvofandi niðurskurðar í heilbrigðismálum. Vestmannaeyjar eru næst stærsti þéttbýliskjarni á Íslandi utan suðvesturhornsins.
Einungis Akureyri er stærri. Landfræðileg staða gerir það að verkum að samfélagið í Vestmannaeyjum er algerlega einangrað í 12 tíma á sólarhring, jafnvel þegar veðurfarsleg skilyrði eru eins og best verður á kosið. Stór hluti íbúa stundar hættulegustu vinnu á íslandi þar sem slys eru tíð og viðburðatengd ferðaþjónusta kallar á umtalsverða nærþjónustu.
Vestmannaeyjabær telur því að sérstaða Eyjasamfélagsins kalli á öfluga heilbrigðisþjónustu og óttast að öryggi heimamanna og gesti verði veruleg hætt búin verði boðaður niðurskurður að veruleika.
Með það í huga höfum við Eyjamenn farið fram á að landlæknir láti tafarlaust fara fram öryggisúttekt fyrir þjónustusvæði stofnunarinnar," segir í tilkynningu frá Vestmannaeyjabæ.