„Gera má ráð fyrir að afskriftir vegna útlána [Íbúðalánasjóðs] verði í sögulegu hámarki næstu eitt til þrjú árin.“ Þetta kemur fram í svari félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks.
Einnig að útlánatap Íbúðalánasjóðs á tímabilinu 2000-2007 hafi að stærstum hluta verið vegna útlána til einstaklinga. Á tímabilinu 2007-2010 hafi afskriftir vegna útlána til lögaðila hins vegar aukist, einkum vegna leiguíbúðalána.
Í svari ráðherrans hvað varðar næstu ár segir ennfremur að í vaxtaálagi sjóðsins sé gert ráð fyrir afskriftum vegna útlána. Eðli málsins samkvæmt sé nær óhjákvæmilegt að einhverjar afskriftir verði á hverjum tíma en umfang þeirra ræðst jafnan af stöðu efnahagsmála hverju sinni.
Fram kemur að um mitt þetta ár voru 3699 milljónir króna í afskriftasjóði vegna afskrifta útlána auk 1126 milljóna króna vegna niðurfærslu uppboðsíbúða.