Jón Ásgeir Jóhannesson, kaupsýslumaður, segir við breska blaðið Daily Telegraph í dag, að íslenskir rannsakendur hafi verið „í veiðiferð" í gær þegar gerð var húsleit á 16 stöðum vegna rannsóknar á starfsemi Glitnis banka fyrir hrun. Þeir hefðu ekki fundið neitt bitastætt.
„Þeir hafa reynt að eltast við mig árum saman," hefur blaðið eftir Jóni Ásgeiri sem bætir við að hann viti ekki að hverju rannsakendurnir séu að leita.
„Ef einhver væri að reyna að leyna einhverju hefði þeim sömu væntanlega tekist það á tveimur árum. En ég held að fólk þurfi ekki að reyna að fela neitt. Sérstakur saksóknari kemur ekki fram með nein mál," segir Jón Ásgeir.
Breskir fjölmiðlar hafa í gærkvöldi og morgun fjallað um húsleitir á vegum embættis sérstaks saksóknara í gær.