Sló flötum í innsiglingunni

Herjólfur á leið inn í Landeyjahöfn. Atvikið varð við hafnarmynnið.
Herjólfur á leið inn í Landeyjahöfn. Atvikið varð við hafnarmynnið. Rax / Ragnar Axelsson

Herjólfi sló næstum flötum við hafnarmynnið í Landeyjahöfn þegar skipið kom þangað um klukkan 11.00 í morgun. Allt fór þó vel en ekki voru farnar fleiri ferðir í Landeyjahöfn í dag. Síðdegisferðin var farin í Þorlákshöfn og einnig verður siglt þangað á morgun meðan málið er rannsakað.

Uppfært kl. 19.27

Ívar Gunnlaugsson skipstjóri á Herjólfi sagði að skipið hafi verið komið rétt inn fyrir hafnargarðana þegar kom alda sem sneri skipinu. „Við fengum bara öldu undir hann sem sneri honum í innsiglingunni. Það var ekkert. Þetta var mínútubrot sem við vorum í þessu, tók örstuttan tíma,“ sagði Ívar. „ Ég bakkaði bara til að stoppa hann. Svo sneri ég honum og hélt áfram inn.“

„Það virðist hafa komið alda undir skipið sem sneri því illilega í innsiglingunni,“ sagði Guðmundur Petersen, rekstrarstjóri Herjólfs hjá Eimskip. „Við erum að skoða þetta, erum með myndbönd og annað, og ætlum að skoða þetta með skipstjóranum á morgun og reyna að kryfja þetta. Það var þó nokkur alda og hún sneri skipinu.“

Atvikið gerðist mjög snöggt. Vélunum var beitt af fullu afli afturábak og nötraði skipið undan átökunum, samkvæmt heimildum mbl.is. Skipstjórnarmenn Herjólfs náðu strax stjórn á skipinu og stýrðu því inn í höfnina og þar sem það lagðist það að bryggju heilu og höldnu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert