Stefnan þarf að vera ljós

Ögmundur Jónasson ráðherra.
Ögmundur Jónasson ráðherra. Ómar Óskarsson

Ögmundur Jónasson, ráðherra, segir nauðsynlegt að fá botn í það hvert stefnir í viðræðum við Evrópusambandið (ESB). Hann segir aðildarsinnar segi fjarri því að um aðlögun sé að ræða. Það hafi hins vegar komið skýrt í ljós undanfarna daga að ESB álíti að umsóknarríki verði að laga lög sín að lögum ESB.

Ögmundur birti grein á heimasíðu sinni og vitnar í Angela Fiola, fulltrúa á stækkunarskrifstofu ESB, sem segi að ekki sé hægt að flýta samningaviðræðum. Umsóknarríki verði „með öðrum orðum að hafa staðlað lög sín og reglur að fullu þegar til kastanna kemur.  Fréttaskýrandi á EU Observer leggur þennan skilning einnig í ferlið: „Samhliða viðræðum, er venjan sú að aðildarumsækjandinn aðlagi lög sín svo þau séu í samræmi við lög Evrópusambandsins,“ skrifar Ögmundur.

„Hér er talað tæpitungulaust. Vandinn er sá að það var ekki þetta sem við samþykktum að gera vorið 2009 á Alþingi Íslendinga. Við ákváðum að ganga til viðræðna við Evrópusambandið, ná niðurstöðu og bera hana undir þjóðina. Þegar á daginn kemur að við erum krafin um aðlögun í sjálfu samningsferlinu og að tilkostnaðurinn er óheyrilegur við endalausa rýni- og aðlögunarvinnu þá viljum við sum hver gera kröfu um önnur vinnubrögð.

Tilefni greinarinnar er viðtal við Þorstein Pálsson, einn samningamanna Íslands, í Ríkisútvarpinu. Þar sagði Þorsteinn m.a. að ríkisstjórnin geti ekki komið fram klofin í málinu. Ögmundur spyr hvort Þorsteinn átti sig ekki á því að VG sé andvíg inngöngu Íslands í ESB?

„Í þingflokknum varð hins vegar ofan á það sjónarmið að þjóðin ætti að fá tækifæri til að greiða atkvæði um niðurstöðu samningaviðræðna. Þetta er lýðræðisleg nálgun sem ég hélt að Þorsteinn Pálsson þekkti - og virti,“ skrifar Ögmundur.  Hann segi ljóst að stokka verði málin upp og fá botn í hvert við stefnum í raun.

„Eitt er að vera sammála um að vera ósammála um ESB nema það eitt að þjóðin eigi að fá í hendur niðurstöðu samningaviðræðna um helstu álitamálin og síðan greiða um hana atkvæði. Nú eru samningamenn Íslands farnir að reisa kröfur á hendur öðrum ríkisstjórnarflokknum um að hann breyti grundvallarafstöðu sinni til ESB.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka