Yfirheyrslur stóðu fram eftir kvöldi hjá sérstökum saksóknara samhliða og í kjölfar húsleita sem gerðar voru á allmörgum stöðum í gær í tengslum við rannsókn á lánveitingum hins fallna Glitnis banka.
Einhverjir voru handteknir en seint í gærkvöldi hafði ekki verið gerð nein krafa um gæsluvarðhald.
Fréttablaðið segir í dag að meðal þess sem liggi til grundvallar húsleitunum sé samningur um kaup Glitnis á verðlausu skuldabréfi af Sögu Capital fjárfestingarbanka á rúman milljarð króna eftir bankahrun. Talið sé að samningurinn hafi verið falsaður til að láta líta út fyrir að hann hafi verið gerður fyrir hrun.
„Heilt yfir hefur framkvæmdin gengið mjög vel. Við höfum náð að fylgja þeirri áætlun sem upp var sett og að mestu leyti náð að ljúka því sem ætlað var,“ sagði Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, í gærkvöldi. Þá var megnið af þeim upplýsingum sem aflað var við húsleitir komið í hús.
Jón Ásgeir Jóhannesson gagnrýnir starfsaðferðir sérstaks saksóknara en húsleit var gerð á skrifstofu 101 Hótels vegna gagna sem hann kynni að búa yfir. „Ég held að saksóknari geti alveg náð fram sömu niðurstöðu með mannlegri nálgun og eðlilegum fyrirspurnum bréflega,“ segir Jón Ásgeir í Morgunblaðinu í dag.
Húsleit var gerð í höfuðstöðvum Sögu fjárfestingabanka. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson gaf sérstökum saksóknara skýrslu, sem og annar starfsmaður bankans, Þórleifur Björnsson. Saga keypti á sínum tíma 6% hlut í Stím, en félagið var einnig skráð til heimilis á sama stað og Saga. Einnig var Bjarni Jóhannsson, fyrrverandi viðskiptastjóri hjá Glitni, færður til yfirheyrslu.
Nafn útgerðarmannsins Jakobs Valgeirs Flosasonar komst í hámæli í nóvember 2008 þegar Morgunblaðið greindi fyrst frá efnisatriðum Stím-málsins, en Jakob var skráður stjórnarformaður Stíms. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var Jakob Valgeir þó ekki meðal þeirra sem voru yfirheyrðir í gær.