Með skattahækkunum og skerðingu vaxtabóta og barnabóta lækka ráðstöfunartekjur heimila um 8,7 milljarða króna. Á móti kemur að heimild til að greiða áfram út séreignarsparnað verður framlengd á næsta ári og það eykur ráðstöfunartekjur heimila um 6 milljarða.
Að mati fjármálaráðuneytisins rýra þessar breytingar í heild sinni kaupmátt um 0,5% og hækka vísitölu neysluverðs um 0,2%.
Þetta kemur fram í frumvarpi fjármálaráðherra um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að barnabætur verði skertar um 1,3 milljarða og vaxtabætur um 2,2 milljarða. Þetta á að gera með því að auka tekjutengingar. Þannig munu t.d. barnabætur til barna yngri en sjö ára skerðast fari tekjur hjóna yfir 300 þúsund á mánuði og falla niður fari þær yfir 470 þúsund. Fjárhæðir vaxtabóta munu lækka um 8% verði frumvarpið samþykkt.
Í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að tekjur ríkisins af tekjuskatti einstaklinga og fjármagnstekjuskatti verða minni á þessu ári en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Sama á við um tekjur af bensíngjaldi, áfengisgjaldi og tóbaksgjaldi. Þetta kemur fram í frumvarpi til fjáraukalaga.