Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að dómur Hæstaréttar, sem staðfesti í dag að Hagar skuli greiða 315 milljónir króna í sekt fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu sína á matvörumarkaði, skipti miklu fyrir þróun samkeppnismála hér á landi.
„Með (dómum) er komið mikilvægt fordæmi sem fyrirtækjum á samkeppnis-mörkuðum ber að horfa til. Af dóminum leiðir m.a. að það getur verið markaðsráðandi fyrirtækjum dýrkeypt að misbeita styrk sínum og takmarka samkeppni neytendum og atvinnulífi til tjóns“, segir Páll Gunnar í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.
Brot Haga áttu sér stað í svonefndu verðstríði lágvöruverðsverslana sem hófst árið 2005 þegar Krónan í eigu Kaupáss kynnti allt að 25% verðlækkun á algengustu flokkum dagvara.
Samkeppniseftirlitið taldi, að Hagar hefðu misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja mjólk og mjólkurvörur undir kostnaðarverði í verslunum Bónuss í langan tíma. Voru helstu mjólkurafurðir seldar með stórfelldu tapi og leiddi þetta til þess að verslanir Bónuss voru í heild reknar með tapi.
Það var mat Samkeppniseftirlitsins að í verðlagningunni fælist ólögmæt undirverðlagning og að háttsemin væri til þess fallin að viðhalda og styrkja með óeðlilegum hætti stöðu Haga á markaðnum fyrir sölu á dagvörum í matvöruverslunum. Jafnframt sýndi rannsókn Samkeppniseftirlitsins að brotin voru umfangsmikil.
Aðgerðir Haga voru til þess fallnar að útiloka helstu keppinauta, s.s. lágvöruverðsverslanir í eigu Kaupáss og Samkaupa frá samkeppni og þar með veikja þau fyrirtæki sem keppinauta á markaðnum.