Starfsmönnum á Landspítala mun væntanlega fækka um 70-100 á næsta ári um leið og ráðist verður í víðtækar sparnaðaraðgerðir. Alls þarf spítalinn að draga saman um 850 milljónir. Lækka á lyfjakostnað, fækka legurúmum, draga úr yfirvinnu og fleira til að það markmið náist.
Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, mun kynna þessar aðgerðir á átta starfsmannafundum í dag. Sá fyrsti hófst á Landakoti klukkan 11.
Í upplýsinum sem hann kynnir fyrir fundarmönnum kemur fram að stjórnendur spítalans eru tilbúnir með aðgerðarlista. Ekki sé hægt að bíða eftir því að fjárlög verði samþykkt.
Helstu aðgerðir felast í að lækka lyf og aðrar rekstrarvörur, draga úr verktakakostnaði, hagræða í launum og rekstrarkostnaði stoðsviða og endurskipuleggja göngudeildir. Þá á að fækka rúmum, fækka starfsmönnum og draga úr yfirvinnu. Einnig á að draga úr prentkostnaði og kaupa minna á bókasafn spítalans og fjölga útboðum.
Starfsmannavelta fremur en uppsagnir
Í aðgerðaráætluninni er stefnt að því að hlífa klínískri starfsemi sem mest. Starfsmönnum mun líklega fækka um 70-100 en reynt verður eftir megni að nýta starfsmannaveltu, fremur en uppsagnir.
Starfsmenn Landspítalans eru í dag 4594 og hefur fækkað um 627 eða um 12% Dagvinnustöðugildi eru nú 3516 og hefur fækkað um 327, um 8,5%. Fáar uppsagnir þurfti til að ná þessu fram, samkvæmt því sem fram kemur í kynningu Björns.
Dregið hefur verið úr yfirvinnu á spítalanum um 25% og heildarlaunakostnaður lækkað um 1,1 milljarð króna milli ára. Rannsóknum hefur fækkað um 19% og rúmum fækkað um 90.
Á sama tíma hefur starfsánægja á spítalanum aukist úr 3,9 í 4,0,
samkvæmt starfsánægjukönnun sem gerð var á spítalanum í október og 60%
starfsmanna svöruðu. Starfsandi mælist nú 3,5 í stað 3,3 áður en álag
mælist óbreytt, 4,0. Streita hefur á hinn bóginn aukist úr 3,5 í 3,6.
Landspítalinn skuldlaus
Landspítalinn var til skamms tíma skuldseigur í meira lagi en nú skuldar spítalinn hvergi, allar stofnanir hafi gert upp við spítalann og á þessu ári sparar hann rúmlega 250 milljónir í vaxtagreiðslur.