Fækka um 70-100 starfsmenn

Björn Zoëga, forstjóri, kynnir aðgerðirnar fyrir starfsmönnum
Björn Zoëga, forstjóri, kynnir aðgerðirnar fyrir starfsmönnum mbl.is/Golli

Starfsmönnum á Landspítala mun væntanlega fækka um 70-100 á næsta ári um leið og ráðist verður í víðtækar sparnaðaraðgerðir. Alls þarf spítalinn að draga saman um 850 milljónir. Lækka á lyfjakostnað, fækka legurúmum, draga úr yfirvinnu og fleira til að það markmið náist.

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, mun kynna þessar aðgerðir á átta starfsmannafundum í dag. Sá fyrsti hófst á Landakoti klukkan 11.

Í upplýsinum sem hann kynnir fyrir fundarmönnum kemur fram að stjórnendur spítalans eru tilbúnir með aðgerðarlista. Ekki sé hægt að bíða eftir því að fjárlög verði samþykkt. 

Helstu aðgerðir felast í að lækka lyf og aðrar rekstrarvörur, draga úr verktakakostnaði, hagræða í launum og rekstrarkostnaði stoðsviða og endurskipuleggja göngudeildir. Þá á að fækka rúmum, fækka starfsmönnum og draga úr yfirvinnu. Einnig á að draga úr prentkostnaði og kaupa minna á bókasafn spítalans og fjölga útboðum. 

Starfsmannavelta fremur en uppsagnir

Í aðgerðaráætluninni er stefnt að því að hlífa klínískri starfsemi sem mest. Starfsmönnum mun líklega fækka um 70-100 en reynt verður eftir megni að nýta starfsmannaveltu, fremur en uppsagnir. 

Starfsmenn Landspítalans eru í dag 4594 og hefur fækkað um 627 eða um 12% Dagvinnustöðugildi eru nú 3516 og hefur fækkað um 327, um 8,5%. Fáar uppsagnir þurfti til að ná þessu fram, samkvæmt því sem fram kemur í kynningu Björns.

Dregið hefur verið úr yfirvinnu á spítalanum um 25% og heildarlaunakostnaður lækkað um 1,1 milljarð króna milli ára. Rannsóknum hefur fækkað um 19% og rúmum fækkað um 90. 

Á sama tíma hefur starfsánægja á spítalanum aukist úr 3,9 í 4,0, samkvæmt starfsánægjukönnun sem gerð var á spítalanum í október og 60% starfsmanna svöruðu. Starfsandi mælist nú 3,5 í stað 3,3 áður en álag mælist óbreytt, 4,0. Streita hefur á hinn bóginn aukist úr 3,5 í 3,6.

Landspítalinn skuldlaus

Landspítalinn var til skamms tíma skuldseigur í meira lagi en nú skuldar spítalinn hvergi, allar stofnanir hafi gert upp við spítalann og á þessu ári sparar hann rúmlega 250 milljónir í vaxtagreiðslur.


Í lok næsta árs hefur starfsmönnum Landspítala verið fækkað um …
Í lok næsta árs hefur starfsmönnum Landspítala verið fækkað um u.þ.b. 700 frá því kreppan skall á. mbl.is/Rax
Ýmislegt hefur verið gert til að spara á Landspítalanum. Í …
Ýmislegt hefur verið gert til að spara á Landspítalanum. Í stað þess að nota sprautur með belg, til að skola sár í um þúsund tauga- og heilaskurðaðgerðum á ári eru nú notaðar hefðbundnari sprautur. Munurinn er sá að hver „ballonsprauta“ kostar 4.931 krónu en hver venjuleg sprauta kostar 130 krónur. Það gerir því 4,8 milljóna króna sparnað. Myndin var tekin á blaðamannafundi fyrr á þessu ári þar sem Björn Zoëga, forstjóri spítalans, kynnti ýmsar sparnaðaraðgerðir. Hann sést hér með tvenns konar einnota sprautur, „ballonsprautu“ og venjulega. Ernir Eyjólfsson
Landspítalinn, áður skuldseigur, er nú skuldlaus.
Landspítalinn, áður skuldseigur, er nú skuldlaus. mbl.is/Heiðar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert