Fækkaði um 140 þúsund eintök

Á síðasta ári voru  gefin hér á landi út tvö dagblöð og 21 vikublað. Heildarútbreiðsla dagblaðanna nam 138.000 eintökum og vikublaða 70.000.

Samfara fækkun dagblaðanna úr fimm í tvö frá fyrra ári dróst samanlögð útbreiðsla dagblaðanna saman um 140.000 eintök. Samanlögð útbreiðsla vikublaða jókst hins vegar um 12.000 eintök á milli ára.

Þetta kemur fram í nýju hefti Hagstofunnar þar sem fjallað er um útgáfu blaða og tímarita á síðasta ári. Þar kemur fram, að frá árinu 1995 hefur dagblöðum fækkað úr fimm í tvö. Dagblöðin hafa ekki verið færri síðan á öðrum áratug síðustu aldar. Vikublöðum hefur nokkuð fækkað á síðustu árum, eða úr 25 þegar best hefur látið í 21 í fyrra.

Á síðasta ári minnkaði útbreiðsla dagblaða um 140.000 eintök, eða úr 278.000 eintökum í 138.000, eftir að hafa aukist stöðugt allt frá árinu 2001 með tilkomu fyrsta frídagblaðsins, Fréttablaðsins, og síðar með útgáfu frídagblaðsins Blaðsins, síðar 24 stunda, frá og með 2005. Frá 2008 hefur útgáfu 24 stunda verið hætt og útgáfu tveggja seldu dagblaðanna verið breytt í vikublaðsútgáfu.

Á síðasta ári kom út 21 vikublað, eða einu færra en á fyrra ári. Tvö vikublaðanna sem komu út á síðasta ári voru landsblöð, en blöð sem hafa staðbundna efnistilhöfðun og dreifingu, svo nefnd landshluta- og staðarblöð, voru 19 talsins. Af þeim vikublöðum sem út voru gefin á síðasta ári voru 11 seld blöð en fríblöð 10.

Samanlögð útbreiðsla vikublaða á síðasta ári nam 70.000 eintökum að jafnaði. Þar af var útbreiðsla landshluta- og staðarblaða um þrír fjórðu, eða 52.000 eintök. Útbreiðsla landshluta- og staðarblaða hefur dregist talsvert saman síðustu ár, eða um 32.000 eintök frá árinu 2007 er útbreiðslan náði hámarki, eða 82.000 eintök.

Á undanförnum árum hefur útbreiðsla landsblaða útgefinna 1–3 í viku verið innan við 10.000 eintök. Á síðasta ári var samanlögð áætluð útbreiðsla þeirra tveggja vikublaða sem teljast landsblöð um 18.000 eintök.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert