Flestir vilja ekki í Sjálfstæðisflokkinn í stjórn

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins

Flestir þeirra sem tóku þátt í nýrri könnun MMR vilja síst Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn, samkvæmt fréttatilkynningu frá MMR.  Af þeim sem tóku afstöðu voru 37,9% sem sögðu að þeir vildu síst hafa Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn, 27% tilgreindu Vinstrihreyfinguna-grænt framboð, 19,7% nefndu Samfylkinguna, 7,8% nefndu á Framsóknarflokkinn og 7,5% sögðu að þeir vildu síst hafa Hreyfinguna í ríkisstjórn.

Spurt var: Af þeim stjórnmálaflokkum sem nú eru með þingmenn á Alþingi, hvern þeirra myndir þú síst vilja hafa í ríkisstjórn? Svarmöguleikar voru: Síst hafa Framsóknarflokkinn, síst hafa Sjálfstæðisflokkinn, síst hafa Samfylkinguna, síst hafa Vinstrihreyfinguna-grænt framboð, síst hafa Hreyfinguna og veit ekki/vil ekki svara. Samtals tóku 86,8% afstöðu til spurningarinnar. Aðrir svöruðu „veit ekki/vil ekki svara‘‘.

Stuðningsmenn VG og Samfylkingar vilja síst Sjálfstæðisflokkinn

Umtalsverður munur var á afstöðu svarenda eftir stuðningi við stjórnmálaflokka (ef gengið væri til Alþingiskosninga nú). Þannig var áberandi að 84% stuðningsfólks Vinstri-grænna og 73% stuðningsfólks Samfylkingarinnar vildu síst hafa Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn.

Þá voru 15% stuðningsmanna Framsóknarflokks og 38% stuðningsmanna Hreyfingarinnar sem vildu síst hafa Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn, segir í fréttatilkynningu.

Stuðningsfólk Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks voru aftur á móti þeir svarendur sem voru líklegastir til að nefna Samfylkingu eða Vinstri-græna sem þá flokka sem það vildi síst hafa í ríkisstjórn. Þannig nefndu 35% framsóknarfólks og 41% sjálfstæðisfólks Samfylkinguna sem þann flokk sem það vildi síst hafa í ríkisstjórn en 42% framsóknarfólks og 47% sjálfstæðisfólks nefndu Vinstri-græna sem þann flokk sem það vildi síst hafa í ríkisstjórn.

Ef horft er til þeirra sem segjast myndu vilja kjósa aðra flokka en þá sem nú sitja á Alþingi, þá sem segjast myndu skila auðu og þá sem hafa ekki tekið afstöðu til þess hvað þeir myndu kjósa ef kosið væri nú má sjá líkt mynstur milli allra þessara hópa. Á bilinu 41% til 50% vilja síst hafa Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn, 23%-26% vilja síst hafa Vinstri-græna í ríkisstjórn og undir 20% vilja síst hafa Samfylkinguna í ríkisstjórn.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka