Hæstiréttur hefur sakfellt lögreglumann fyrir að hafa farið offari við framkvæmd lögreglustarfa og ekki gætt lögmætra aðferða er hann sem stjórnandi lögregluaðgerðar. Refsingu lögreglumannsins var hins vegar frestað og hann var sýknaður af ákæru fyrir líkamsárás. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður sýknað lögreglumanninn af öllum ákæruatriðum.
Lögreglumaðurinn stýrði hóp þriggja lögreglumanna og nema lögregluskólans, sem var í starfsnámi. Þeir svöruðu tilkynningu frá skemmtistað í miðborginni en grunur lék á að maður vopnaður hnífi væri þar innandyra.
Fyrir utan hittu þeir fyrir ungan og kjaftforan mann, fórnarlambið í málinu. Eftir nokkuð þóf var maðurinn handtekinn og honum ekið út á Granda þar sem hann var skilinn eftir. Var lögreglumaðurinn ákærður fyrir að hafa á leiðinni út á Granda þrýst hné sínu á háls unga mannsins, þar sem hann lá handjárnaður, með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut marbletti aftan á hálsinum.
Ungi maðurinn var ekki beðinn um nafn né var neitt skráð um atvikið í bókum lögreglunnar.
Hæstiréttur segir, að í lögreglulögum sé mælt fyrir um að handtekinn maður sé færður á lögreglustöð eða á annan stað þar sem lögregla hefur aðstöðu. Eigi þetta við ef honum sé ekki þegar sleppt. Ákvörðun lögreglumannsins um að ekið skyldi með manninn þá leið sem gert var til að freista þess að róa hann niður, svo lögreglumennirnir kæmust sem fyrst til að sinna áfram því verkefni á veitingastaðnum, sem þeir höfðu verið kvaddir til, hafi ekki átt sér stoð í 15. gr. lögreglulaga.
Þá hafi aðgerðin ekki heldur rúmast innan þeirra almennu heimilda sem lögregla hafi samkvæmt venju til þess að halda uppi lögum og reglu.
Hæstiréttur sýknaði lögreglumanninn af ákæru fyrir líkamsárás. Í dómi héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti, segir að að í þrengslunum í lögreglubílnum hafi lögreglumaðurinn hafi átt fullt í fangi með að hemja óðan mann, sem braust um og sparkaði frá sér. Þá hafi lögreglumaðurinn þurft að halda sér vegna ferðarinnar á bílnum. Einnig hafi tak lögreglumannsins á unga manninum ekki haft í för með sér hættulegan áverka og loks sé ekki útilokað, að ungi maðurinn hafi að einhverju leyti valdið áverkanum sjálfur með umbrotum sínum.
Því sé ósannað að lögreglumaðurinn hafi beitt hnénu af svo miklu
afli að hann teljist, við þessar kringumstæður, ekki hafa gætt lögmætrar
aðferðar við það að halda unga manninum.