Fór offari við handtöku

Hæstirétt­ur hef­ur sak­fellt lög­reglu­mann fyr­ir  að hafa farið offari við fram­kvæmd lög­reglu­starfa og ekki gætt lög­mætra aðferða er hann sem stjórn­andi lög­regluaðgerðar. Refs­ingu lög­reglu­manns­ins var hins veg­ar frestað og hann var sýknaður af ákæru fyr­ir lík­ams­árás. Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur hafði áður sýknað lög­reglu­mann­inn af öll­um ákæru­atriðum.

Lög­reglumaður­inn stýrði hóp þriggja lög­reglu­manna og nema lög­reglu­skól­ans, sem var í starfs­námi. Þeir svöruðu til­kynn­ingu frá skemmti­stað í miðborg­inni en grun­ur lék á að maður vopnaður hnífi væri þar inn­an­dyra. 

Fyr­ir utan hittu þeir fyr­ir ung­an og kjaft­for­an mann, fórn­ar­lambið í mál­inu. Eft­ir nokkuð þóf var maður­inn hand­tek­inn og hon­um ekið út á Granda þar sem hann var skil­inn eft­ir. Var lög­reglumaður­inn ákærður fyr­ir að hafa á leiðinni út á Granda þrýst hné sínu á háls unga manns­ins, þar sem hann lá hand­járnaður, með þeim af­leiðing­um að maður­inn hlaut mar­bletti aft­an á háls­in­um.

Ungi maður­inn var ekki beðinn um nafn né var neitt skráð um at­vikið í bók­um lög­regl­unn­ar.

Hæstirétt­ur seg­ir, að í lög­reglu­lög­um sé  mælt fyr­ir um að hand­tek­inn maður sé færður á lög­reglu­stöð eða á ann­an stað þar sem lög­regla hef­ur aðstöðu. Eigi þetta við ef hon­um sé ekki þegar sleppt. Ákvörðun lög­reglu­manns­ins um að ekið skyldi með mann­inn þá leið sem gert var til að freista þess að róa hann niður, svo lög­reglu­menn­irn­ir kæm­ust sem fyrst til að sinna áfram því verk­efni á veit­ingastaðnum, sem þeir höfðu verið kvadd­ir til, hafi ekki átt sér stoð í 15. gr. lög­reglu­laga.

Þá hafi aðgerðin ekki held­ur rúm­ast inn­an þeirra al­mennu heim­ilda sem lög­regla hafi sam­kvæmt venju til þess að halda uppi lög­um og reglu.

Hæstirétt­ur sýknaði lög­reglu­mann­inn af ákæru fyr­ir lík­ams­árás. Í dómi héraðsdóms, sem Hæstirétt­ur staðfesti, seg­ir að að í þrengsl­un­um í lög­reglu­bíln­um hafi lög­reglumaður­inn hafi átt fullt í fangi með  að hemja óðan mann, sem braust um og sparkaði frá sér. Þá hafi lög­reglumaður­inn þurft að halda sér vegna ferðar­inn­ar á bíln­um. Einnig hafi tak lög­reglu­manns­ins á unga mann­in­um ekki haft í för með sér hættu­leg­an áverka og loks sé ekki úti­lokað, að ungi maður­inn hafi að ein­hverju leyti valdið áverk­an­um sjálf­ur með um­brot­um sín­um.

Því sé ósannað að lög­reglumaður­inn hafi beitt hnénu af svo miklu afli að hann telj­ist, við þess­ar kring­um­stæður, ekki hafa gætt lög­mætr­ar aðferðar við það að halda unga mann­in­um. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert