Fréttaskýring: Hækkun skatta og skerðing bóta rýrir kaupmátt um 0,5%

mbl.is/Heiðar

Með hækkun skatta og skerðingu bóta á næsta ári minnkar kaupmáttur launafólks um 0,5% og vísitala neysluverðs hækkar um 0,2%. Með auknum tekjutengingum skerðast barnabætur um 1,3 milljarða króna og vaxtabætur um 2,2 milljarða.

Samkvæmt tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins var gert ráð fyrir að breytingar á tekjustofnun ríkisins skiluðu 11 milljörðum í auknar tekjur. Fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum, svokallaðan bandorm, en samkvæmt því hækka skattarnir um 10,3 milljarða. Ástæðan fyrir minni tekjum er að áform um að ná inn einum milljarði með hækkun skatta á tóbak og áfengi í Fríhöfninni hafa verið endurskoðuð. Breytingarnar þýða að þessi liður á nú að skila 300 milljónum í auknar tekjur.

Tekjumörk auðlegðarskatts lækka

Frumvarpið gerir ráð fyrir hækkun á fjármagnstekjuskatti og hækkun á tekjuskatti fyrirtækja úr 18% í 20%. Auðlegðarskattur, sem var í fyrsta skipti lagður á á þessu ári, verður hækkaður á næsta ári. Bæði er skattprósentan hækkuð og eins eru eignamörk lækkuð. Núna er skatturinn lagður á einstaklinga með 90 milljónir í hreina eign eða meira og á hjón sem eiga 120 milljónir eða meira. Með frumvarpinu lækka þessi mörk í 75 milljónir fyrir einstakling og 100 milljónir fyrir hjón.

Erfðafjárskattur mun hækka á næsta ári úr 5% í 10%. Samhliða hækka skattfrelsismörk á hvert dánarbú úr einni milljón í 1,5 milljónir.

Fjármálaráðuneytið hefur nokkuð dregið í land með breytingar á skattlagningu áfengis og tóbaks í Fríhöfninni. Þessar breytingar eiga núna að skila 300 milljónum en ekki milljarði eins og upphaflega var áformað. Miðað er við að tóbaksgjald verði 20% af almennu vörugjaldi tóbaks og 10% af almennu vörugjaldi áfengis.

Almenn vörugjöld á áfengi og tóbaki voru hækkuð um 40% í fyrra og segir í frumvarpinu að þessi hækkun „hafi að einhverju marki dregið úr innlendri sölu“. Frumvarpið gerir ráð fyrir að vörugjald á tóbak hækki um 7% og vörugjald á áfengi um 4%.

Á síðasta ári var tekið upp kolefnisgjald á fljótandi eldsneyti. Frumvarpið gerir ráð fyrir að þetta gjald hækki um 50% á næsta ári í flestum gjaldflokkum. Eftir hækkun verður gjaldið 3,80-4,60 kr. á hvern lítra.

Þá eru í farvatninu kerfisbreytingar á bifreiðagjaldi og vörugjaldi bifreiða, en sérstakt frumvarp um þetta mun koma fram á Alþingi fljótlega.

Auknar tekjutengingar í barnabótum

Frumvarpið gerir ráð fyrir framlengingu á heimild til að greiða út séreignasparnað. Síðan þessi heimild var opnuð hafa verið greiddir út 43 milljarðar og gert er ráð fyrir að 10 milljarðar verði greiddir út til viðbótar á næsta ári. Af þessari upphæð fara þrír milljarðar í tekjuskatt í ríkissjóð.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu átti að skerða barnabætur um 1,3 milljarða og vaxtabætur um 2,2 milljarða. Þessar skerðingar eru útfærðar í bandorminum, en þær byggjast á því að auka tekjutengingar þannig að þeir sem hafa meðaltekjur og háar tekjur fái minna eða ekki neitt. Þannig gerir frumvarpið ráð fyrir að barnabætur vegna barna sjö ára og yngri verði tekjutengdar. Barnabætur með hverju barni yngra en sjö ára eru 5.100 kr. á mánuði og byrja þær að skerðast ef tekjur hjóna eru meiri en 300 þúsund á mánuði og falla niður þegar tekjurnar ná 470 þúsundum á mánuði.

Bandormurinn gerir ráð fyrir að vaxtabætur skerðist um 8%, en bæturnar fara eftir hjúskaparstöðu. Tekið er fram í greinargerð með frumvarpinu að stjórnvöld séu að skoða tillögur til að koma á móts við skuldug heimili og hugsanlegt sé að breytingar á vaxtabótum verði endurskoðaðar þegar endanlegar tillögur liggja fyrir í þeim efnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert