Hagkerfið sýnir viðbragðsflýti

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.

Fjármálaráðherra sagði á Alþingi í kvöld, að almennt mætti segja, að íslenska hagkerfið væri að spjara sig vel miðað við aðstæður og sýna bæði viðbragðsflýti sinn og aðlögunarhæfni. Að sjálfsögðu væri róðurinn þungur í mörgum fyrirtækjum, einkum vegna skulda og samdráttar.

Þetta kom fram í umræðu um frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, mælti fyrir síðdegis.  Samkvæmt frumvarpinu hækka skattar um 10,3 milljarða króna á næsta ári.

Steingrímur sagði m.a. að margir þeirra, sem misstu vinnu í bönkum við bankahrunið haustið 2008, hefðu fengið vinnu í nýsköpunar- og sprotastarfsemi sem nú væri mikil gróska í. 

„Að einhverju leyti er þegar í gangi sú þróun og aðlögun, sem hlýtur að verða þegar stórir geirar eins og bygginga- og mannvirkjagerð og fjármálastarfsemi nánast hrynja," sagði Steingrímur. 

Þá kom fram hjá Steingrími, að markaðsátak í ferðaþjónustu í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli, hefði skilað þeim árangri, að síðari hluti sumarsins og haustið varð gott og horfur væru mjög góðar á næsta ári varðandi bókanir og flugferðir til landsins. 

Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu frumvarpið harðlega. Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að  frumvarpið gengi þvert gegn þeim hugmyndum, sem verið hefðu í flokknum um aðgerðir til að taka á vanda heimilanna og ríkissjóðs. Ekki væri aðeins gengið mjög hart í skattahækkunartillögum heldur væri verið að ræða um nýja skatta, svo sem skatt á fjármálafyrirtæki. 

Þá byggði frumvarpið á þeirri hugmyndafræði, að það væri eitthvað svigrúm til að auka álögur á skattgreiðendur. „Við teljum svo ekki vera," sagði Bjarni. 

Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, gagnrýndi, að í enn eitt skiptið ætti að hækka gjöld á áfengi og eldsneyti. Það muni hækka vísitölu neysluverðs um 0,2% sem hækkar aftur skuldir heimilanna um 2-2,5 milljarða króna. „Það munar nú um minna," sagði Birkir Jón.

Þá sagði hann að ökutæki væru fætur fólksins í dreifbýlinu og menn gengju ekkert á milli þéttbýlissvæða á landsbyggðinni heldur þyrfti . Nú á enn eina ferðina að hækka verð á olíu og bensíni," sagði Birkir Jón. Þá stæði til að hækka tolla á bílum og þar yrði landsbyggðin enn undir því verð á fjórhjóladrifnum bílum muni hækka.

Maður veltir því fyrir sér hvar þessi ríkisstjórn ætlar að enda þegar kemur að því að ná í fjármuni úr vösum þeirra, sem búa í hinum dreifðu byggðum," sagði Birkir Jón.

Steingrímur  sagði margir hefðu viljað hafa hlutina öðruvísi og að ekki hefði þurft að koma til þeirra fjölmörgu erfiðu ráðstafana, sem gera verði til að ná tökum á rekstri ríkis og sveitarfélaga.

Að sjálfsögðu væri rétt og skylt að rökræða um leiðir en sú umræða yrði að vera innan þess ramma, að verkefnið sé að ná tökum á hallarekstri ríkisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka