Innbrot og þjófnaðir, sem framin voru í Búðardal fyrir um mánuði síðan, eru nú að upplýsast, að sögn lögreglunnar í Borgarnesi. Tveir menn voru handteknir í Ólafsvík í gærkvöldi í tengslum við málið. Lögreglumenn frá Borgarnesi fóru vestur í Ólafsvík og gerðu húsleit í tveimur húsum. Þar fannst megnið af þýfinu.
Brotist var inn á sjö stöðum í Búðardal og talsverðum verðmætum stolið. Þar á meðal var tölvubúnaður, verkfæri og reiðufé. Búið er að endurheimta megnið af mununum sem var stolið, að sögn lögreglunnar.
Lögreglan í Borgarnesi og lögreglan í Stykkishólmi hafa unnið í sameiningu að rannsókn málsins. Rannsókn er ekki að fullu lokið.