Nefskattur skásta lausnin

Göngustígar, girðingar og merkingar á Geysissvæðinu eru ekki í nægilega …
Göngustígar, girðingar og merkingar á Geysissvæðinu eru ekki í nægilega góðu horfi, og reglulega leggja ferðamenn á svæðinu sig í mikla hættu með því að fara of nærri hverunum. Rax / Ragnar Axelsson

Einar Torfi Finnsson, framleiðslustjóri hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum, segir að sér sýnist sem skásta leiðin til að fjármagna framkvæmdasjóð til að bæta aðstöðu á ferðamannastöðum sé að leggja á e.k. nefskatt á þá sem koma til landsins. Upphæðin gæti verið á bilinu 500 til 1000 krónur.

 Hann minnir um leið á að ferðaþjónustan leggi nú þegar mikið til ríkissjóðs og við eðlilegar aðstæður hefði ferðaþjónustan væntanlega gert kröfu um að ríkið legði meira fé í uppbyggingu ferðamannastaða.

Einar Torfi hélt fyrirlestur á fundi um ástand friðaðra svæði nú í morgun. Íslenskir fjallaleiðsögumenn eru handhafar umhverfisverðlauna Ferðamálastofu árið 2010.

 Ferðaþjónustan skilar miklum skatttekjum

 Einar Torfi sagði í fyrirlestri sínum að leysa þyrfti þann vanda sem menn stæðu nú frammi fyrir og kæmi fram í nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar; að ferðamannastaðir væru að drabbast niður. Svæðin þyrfti að byggja upp þannig að þau gætu tekið við ákveðnum fjölda ferðamanna án þess að verða fyrir skemmdum. Finna þyrfti leið til að fjármagna sjóð til að standa að slíkum framkvæmdum.

Hann benti líka á að ferðaþjónustan greiði nú þegar mikið til ríkissjóðs í formi virðisaukaskatts og tekjukatts. „Ferðaþjónustan er mjög atvinnuskapandi. Ég reiknaði það út að gamni í gær að fyrir hverjar 10 milljónir í veltu hjá Íslenskum fjallaleiðlögmönnum verður til eitt ársverk,“" sagði Einar Torfi í samtali við mbl.is.

Einar Torfi sagði í fyrirlestri sínum mikilvægt auka vægi vetrarferðaþjónustu enda þoli mörg svæði á landinu mun meiri umferð að vetri. 

Þá benti hann á að þótt að ferðaþjónustan nýtti vissulega landgæði þá væri hún ekki eina atvinnugreinin sem það gerði. Vart væri sanngjarnt að gera ríkari kröfur til ferðaþjónustunnar en annarra sem landið nýta, s.s. orkufyrirtækja.

Líst illa á að rukka inn

Einar Torfi sagði að búið væri að varpa fram ýmsum hugmyndum um hvernig fjármagna mætti framkvæmdir á ferðamannastöðum. Ein þeirra er að rukkað verði fyrir aðgang að vinsælum stöðum, s.s. að Gullfossi og Geysi. „Ég er ekki mjög hrifinn af þeirri hugmynd,“ sagði Einar Torfi. Hætta væri á að innheimtan væri svo kostnaðarsöm að takmarkaður hluti af innheimtum gjöldum myndi skila sér til framkvæmda. Þá yrði að hafa í huga að ferðamenn heimsæki fleiri staði en þá sem friðaðir eru eða eru innan þjóðgarða og slíka staði þyrfti líka að byggja upp. Hætta væri á að önnur svæði, sem ekki nytu sértekna, yrðu útundan.

Þá væri einnig hætta á að ríkið myndi skera niður í fjárlögum til jafns við það sem myndi innheimtast. Einar Torfi sagði að slíkt hefði einmitt gerst í Skaftafelli á sínum tíma þegar þjóðgarðurinn ætlaði að afla aukatekna með því að selja minjagripi. Ríkið hefði einfaldlega skorið niður framlög sem tekjunum nam. Skýrt verði að vera að allar þær aukatekjur sem ríkið afli af ferðamönnum, með hvaða hætti sem þær verða innheimtar, skili sér í málaflokkinn.

Verður að gæta jafnræðis

Einar Torfi telur að skásta leiðin til að afla fjár til að bæta ferðamannastaði sé að leggja nefskatt á þá sem koma til landsins. Rætt hefði verið um að leggja slíkan skatt eingöngu á erlenda ferðamenn eða á alla þá sem koma hingað, þar með talið á Íslendinga á leið heim úr utanlandsferðum. Eitthvað hefði þó verið rætt um að vandkvæði væru á að leggja slíkt gjald ofan á verð á farmiðum. Upphæðin þyrfti ekki að vera há, líklega um 500 krónur ef hún yrði lögð ofan á alla komufarþega en þannig mætti safna nokkur hundruð milljónum króna.

Einar Torfi sagði sömuleiðis mikilvægt að jafnræðis yrði gætt við innheimtu gjalda. Það gengi ekki að rukka aðeins þá sem eru í hópferðum eða á vegum ferðaskrifstofa. Um helmingur ferðamanna á Íslandi væri hér á eigin vegum og leigði sér bílaleigubíla til að ferðast um landið og varla væri hægt að skilja þann hóp undan í gjaldtökunni. Þá kæmi hækkun á tryggingargjaldi á fyrirtæki í ferðaþjónustu ekki til greina enda legðist slíkt aðeins á innlendar ferðaskrifstofur en ekki erlendar.

Einar Torfi Finnsson
Einar Torfi Finnsson mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert