Óvíst er talið að götulýsing verði sett upp við Þrengslaveg líkt og fyrirheit voru gefin um árið 2006 í tengslum við samkomulag Orkuveitu Reykjavíkur og sveitarfélagsins Ölfuss þegar samið var um virkjun á Hellisheiði. Frá þessu er greint í nýjasta tölublaði Sunnlenska fréttablaðsins.
Í Sunnlenska kemur fram að samkvæmt svörum frá Orkuveitu Reykjavíkur væri málið á borði Vegagerðarinnar. Vegagerðin hefði sent bréf til OR snemma árs 2009 þar sem gerð væri krafa um vottaða ljósastaura og einnig að Vegagerðin gæti ekki sætt sig við að staurar yrðu settir á malarpúða út frá veginum. Malarpúðarnir gætu ógnað umferðaröryggi því hætta væri á að bílar sem færu út af veginum myndu skella á púðunum. Því þyrfti hugsanlega að breikka allan veginn til að koma staurunum fyrir.
Í umsögn Vegagerðarinnar kemur einnig fram að deildar meiningar séu um gagnsemi lýsingar við þjóðvegi í dreifbýli hvað varðar umferðaröryggi, enda sé hún sjaldnast notuð við álíka aðstæður og eru á Þrengslavegi. Þar er umferð tiltöluleg lítil og umferðarhraði mikill.