Segir sig úr stjórn vegna umfjöllunar Fréttatímans

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson

Marinó G. Njálsson hefur sagt sig úr stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna. Þetta gerir hann vegna umfjöllunar Fréttatímans um skuldastöðu hans og konu hans í blaðinu sem kemur út á morgun. Marinó segir að þessi umfjöllun sé frekleg innrás í einkalíf sitt.

„Vegna ítrekaðrar hnýsni fréttamanna í mín einkamál, sé ég mig tilneyddan til að segja af mér stjórnarmennsku fyrir Hagsmunasamtök heimilanna. Jón Kaldal, ritstjóri Fréttatímans, og Óskar Hrafn Þorvaldsson, fréttastjóri Fréttatímans, hafa ákveðið að mínar skuldir séu söluvara.  Hafa þeir ákveðið, þrátt fyrir óskir um hið gagnstæða, að birta frétt um skuldastöðu mína og konu minnar í næsta tölublaði.  Mér finnst þetta frekleg innrás í mitt einkalíf. 

Ég kýs að segja mig úr stjórn HH til að freista þess að verja fjölskyldu mína fyrir frekari hnýsni af þessum toga. Ég gaf konunni minni loforð um að gera það, ef til svona hluta kæmi.  Þar sem ég er maður minna orða, þá stend ég við það.

Þeir félagar, Óskar og Jón, bera fyrir sig furðulegum rökum um að ég sé „opinber talsmaður þrýstihóps um niðurfellingu skulda".  Bara þetta eina atriði sýnir hvað Fréttatíminn hefur lítinn skilning á baráttu Hagsmunasamtaka heimilanna,“ segir Marinó á bloggsíðu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert