Fjórtán þingmenn Framsóknarflokksins, Hreyfingarinnar og Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga.
Flutningsmenn tillögunnar eru: Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Birkir Jón Jónsson,
Eygló Harðardóttir, Siv Friðleifsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Höskuldur Þórhallsson, Þór Saari, Margrét Tryggvadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Pétur H. Blöndal, Sigurður Kári Kristjánsson og Guðlaugur Þór Þórðarson.
Í tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela forsætisráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, að undirbúa málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga gegn íslenska ríkinu og íslenskum fyrirtækjum.
Málsóknin verði í fyrsta lagi byggð á því að beiting hryðjuverkalaganna hafi verið tilefnislaus, ekki lögum samkvæmt og hafi skaðað íslenskt orðspor og fjárhagslega hagsmuni þjóðarinnar. Í öðru lagi verði gerð krafa um skaðabætur fyrir það tjón sem ákvörðun breskra stjórnvalda olli íslenska ríkinu og íslenskum fyrirtækjum.
Í mars í fyrra fór hópur á vegum samtakanna Indefence til
Bretlands þar sem breskri þingnefnd voru afhent formleg mótmæli
gegn beitingu Breta á hryðjuverkalögum gagnvart Íslendingum. Alls voru undirskriftirnar 83 þúsund talsins.