Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, sagði á Alþingi í dag að hún hefði óskað eftir upplýsingum frá Ríkisútvarpinu um kynningu stofnunarinnar á frambjóðendum til stjórnlagaþings.
Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, spurði um þetta á Alþingi í dag og vísaði til þess, að Ríkisútvarpið hefði ákveðið að gefast fyrirfram upp á því verkefni að kynna frambjóðendurna og sett þá jafnframt í fjölmiðlabann. Síðan hefði Ríkisútvarpið bitið höfuðið á skömminni með því að senda öllum frambjóðendum tilboð í auglýsingar. Sagði Margrét að Sjónvarpið hefði nú tekið upp á því að sýna glærur af vef dómsmálaráðuneytisins á næturnar.
Katrín sagði, að RÚV hefði fallið frá því að selja frambjóðendum auglýsingar en þeim þess í stað boðið að kynna sig á skjá utan sjónvarpsdagskrár.
Sagði Katrín, að Ríkisútvarpið hefði tekið þá afstöðu að kynna frekar stjórnarskrána og viðfangsefni stjórnlagaþingsins.
Margrét sagði, að það væri Ríkisútvarpinu til ævarandi skammar að reyna ekki að kynna frambjóendurna 523 betur.
Katrín sagði, að verið væri að endurskoða þjónustusamninginn við RÚV ohf. og þar verði samfélagslegar skyldur RÚV settar í mikið öndvegi.