Vinna vegna aðgerða í skuldamálum heimila og fyrirtækja fer „á fulla ferð“ aftur eftir helgi, sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, að loknum ríkisstjórnarfundi fyrr í dag. Fundað hefur verið í vikunni vegna boðaðra aðgerða, og segir Steingrímur samkomulag liggja fyrir um ýsma þætti. Aðgerðir verði í „nokkrum pökkum.“
Hann segir skuldavandann hafa verið ræddan stuttlega á fundi ríkisstjórnarinnar. „Það var gerð grein fyrir fundum sem voru í vikunni, og því hvar málið er statt núna. Síðan er forsætisráðherra í burtu, þannig að ég geri ráð fyrir að strax eftir helgi verði það sett á fulla ferð aftur,“ sagði Steingrímur.
- Hvar er málið statt núna?
„Það er bara stefnt að því að fara að loka þessu, að sjálfsögðu. Þó fyrr hefði verið. En það er búið að ná samkomulagi um ýmsa þætti sem liggja fyrir. Þetta verður í nokkrum pökkum, sem snúa að fyrirtækjum, heimilum og sértækum úrræðum versus almennum. Þannig að það er myndin á þessu er að skýrast.“
Hann segir að áfram verði fundað með hagsmunaaðilum í þeirri vinnu sem framundan er. „Já, það verður það að sjálfsögðu. Þegar menn eru komnir inn til lendingar verður örugglega farið yfir málið.“