Bjartsýnn á að sátt náist um Evrópumál

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG. mbl.is/Eggert

Flokksráðsþing Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hófst síðdegis í dag. Stuttu fyrir upphaf þingsins sagðist Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna,vera bjartsýnn á að sátt næðist um Evrópusambandsaðild. 

Hann sagðist eiga von á að þingið myndi senda frá sér ályktun um þau í þinglok. „Annars verður margt annað en Evrópumálin rætt á þinginu og margt ekki síður mikilvægt, þó ég sé ekki að gera lítið úr Evrópumálunum. En við munum ræða stjórnmál í sínu víðasta samhengi."

Í upphafi þings ávarpaði Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksráðs VG, þingið. Hún fór yfir þá vinnu og þau málefnaþing sem haldin hafa verið í haust. Hún sagði að ekki fengist næg umræða með því að ræða einungis saman á landsþingum og því hefði tækifærum til umræðna verið fjölgað.

Í ávarpi sínu fór Steingrímur J. Sigfússon yfir stjórnmálaástandið. Hann hóf mál sitt á því að bjóða Þráinn Bertelsson velkominn í flokksráðið og sem þingmann flokksins.

Steingrímur sagði að hollt væri fyrir land og þjóð að hafa í huga að fleiri þjóðir en Íslendingar hafi átt í erfiðleikum, sumsstaðar séu erfiðleikarnir að dynja yfir fyrst núna. Í því sambandi nefndi hann Írland, en búist sé við að fjárlagahalli þar verði um 30% í ár.

Fjárlagahallinn verði 3,5% á næsta ári

Hann sagði fjárlagahalla stefna niður fyrir 5% í ár og stefnt væri að koma honum í um 3,5% á næsta ári. „Það er langt síðan við hurfum af listanum yfir þau tíu lönd sem voru líklegust til að fara á hausinn. En það er ekki sjálfgefið að Ísland sé á þeim stað sem það er núna."

Steingrímur sagðist bjartsýnn á að góður árangur hefði náðst um  mitt næsta ár. „Ríkisfjármálin eru erfið og líklega er erfiðasta lotan einmitt núna. Fjárlögin fyrir næsta ár eru sársaukafull birtingarmynd hrunsins, sem nú fellur af fullum þunga á landinu," sagði Steingrímur. Hann sagði  tekjustofna ríkis og sveitarfélaga vera á botninum núna. „Sumir kalla þetta hrunfjárlög og það er rétt. En þetta eru á sama tíma endurreisnarfjárlög."

Steingrímur sagði glímuna við að skapa störf og draga úr atvinnuleysi ekki hafa gengið ekki eins vel og búist hefði verið við. Hann minntist í þessu samband á erfiðleika við að semja við lífeyrissjóðina um kjör á lánsfé.

Hann sagði að miklu skipti að ríki og sveitarfélög stæðu saman að opinberum verkefnum, ekki síst þyrfti ríkið að aðstoða sveitarfélögin við að ná utan um erlendar skuldir. „Fáir veittu því athygli hvernig erlendar skuldir hlóðust upp hjá sveitarfélögunum á góðæristímum," sagði Steingrímur.

Hann sagði úrvinnslu skulda heimilanna og atvinnulífsins „auðvitað hafa gengið allt of hægt" og að mögulegt væri að leysa þann vanda á næstu 5-6 mánuðum, yrði það að veruleika myndu allt aðrar horfur blasa við. „Allar hagspár gera nú ráð fyrir því að á næsta ári verði hagvöxtur. Auðvitað vildum við gjarnan að hann yrði kraftmikill, en ég hef þá trú að þegar hann fer í gang, þá hafi það góð áhrif."

Upplýsingaskortur mistök

Steingrímur sagði ríkistjórnina hafa gert mistök að einu leyti hvað varðaði ríkisfjármálin. „Ég tel að okkur sé að mistakast að einu leyti hvað varðar ríkisfjármálin. Við þurfum að standa okkur miklu betur í því að útskýra hvers vegna við gerum það sem við erum að gera.“

Hann sagði margar af þeim ákvörðunum, sem hafa verið teknar varðandi niðurskurð, hafa verið gríðarlega erfiðar.„ Við erum ekki að gera þetta að gamni okkar og sumar þessarar ákvarðana hafa verið gríðarlega erfiðar að taka. En ef við gerum þetta ekki, sköpum við langtímavandamál . “

Steingrímur sagði ríkið greiða um 200 milljónir á dag í vexti. „Við tókum að okkur erfitt hlutverk. sem er um leið sögulegt og mikilvægt. Á okkur hvílir mikil ábyrgð, hún snýr ekki bara að okkur sjálfum, þetta snýr um að koma Íslandi aftur á fæturna.“

Flokksmenn sammála um Evrópumál í grunnatriðum

Undir lok ræðunnar spurði Steingrímur fundarmenn hvort hann hefði stuðning og umboð frá flokknum til að halda þessari baráttu áfram. Því var svarað með dynjandi lófaklappi.

„Við þurfum ekki að tala okkur sjálf niður, það eru nógu margir sem gera það,“ sagði Steingrímur. „Þessi ríkisstjórn hefur verið óhemju starfssöm. Engin önnur ríkisstjórn hefur áorkað jafn miklu,“ fullyrti Steingrímur. „Eða sjá menn ekki þau risavöxnu verkefni sem verið er að fást við?“

„Ísland hefur allt sem við þurfum til að fara í gegnum þetta: auðlindir, mannauð og persónustyrk þeirra sem búa á landinu. Við ein getum gert þetta og við ein getum klúðrað þessu.“

Steingrímur sagði flokksmenn VG vera sammála um Evrópumálin í grunnatriðum, menn greindi einna helst um aðferðir. „Við viljum að þjóðin leiði þessi mál til lykta. Ábyrgð okkar snýr ekki bara að okkur sjálfum, hún snýr að Íslandi, að framtíðinni.“

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert