Fleiri á nagladekkjum í ár en í fyrra

Fleiri eru á nagladekkjum nú í Reykjavík en í fyrra.
Fleiri eru á nagladekkjum nú í Reykjavík en í fyrra. mbl.is/Ómar Óskarsson

31,6% ökutækja reyndist vera á negldum dekkjum þegar talning var gerð 17. nóvember síðastliðinn og 68,4% á öðrum tegundum dekkja. Fyrir ári síðan var talið í sömu viku og þá var hlutfall þeirra ökutækja á negldum dekkjum 23,6% og fyrir tveimur árum 35,0%.

Hlutfall bifreiða á negldum dekkjum mælist yfirleitt hæst í febrúar ár hvert. Verulega hefur dregið úr notkun nagladekkja eða úr 67% í febrúar 2001 í 39% í febrúar 2010. Enn er óljóst hvort þessi fjölgun í nóvember sé vísbending um hátt hlutfall í febrúar næstkomandi, segir í tilkynningu frá umhverfissviði Reykjavíkurborgar.

Reykjavíkurborg telur óþarft að nota nagladekk í borginni bæði vegna snjóléttra vetra og góðrar vetrarþjónustu. Nagladekk spæna upp malbik og auka líkur á svifryksmengun. Borgargötur eru yfirleitt annað hvort þurrar eða blautar en sjaldan á kafi í snjó eða ísilagðar og kannanir hafa sýnt að nagladekk eru ekki öruggari en önnur vetrardekk í borgum.

Styrkur svifryks hefur farið 25 sinnum yfir sólarhrings-heilsuverndarmörk á árinu, þar af átta sinnum vegna öskufjúks frá Eyjafjallajökli, fjórtán skipti má rekja beint eða óbeint til bílaumferðar, tvö skipti til flugelda og eitt skipti er óútskýrt.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert