Áætla má að útflutningsverðmæti afurða af þeim 200 þúsund tonnum af loðnu sem Hafrannsóknastofnunin leggur til að leyft verði að veiða í vetur geti numið um 17 milljörðum króna.
Ætla má að útgerðir muni skipuleggja veiðarnar með tilliti til verðmætis afurða, en loðnuhrogn og fryst loðna eru mun verðmætari en mjöl og lýsi, sem þó hafa hækkað í verði undanfarið.
Í umfjöllun um loðnuna í Morgunblaðinu í dag segir Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjastofnasviðs hjá Hafrannsóknastofnun, að loðnumælingar í haust hafi gengið vel og mun betur en undanfarin ár þegar þær voru seinna á ferðinni og ís hafi meðal annars hamlað mælingum. Vel hafi náðst utan um hrygningarstofninn og niðurstaðan sé ráðgjöf um veiðar á 200 þúsund tonnum í vetur. Vitað hafi verið að árgangurinn frá 2008 væri lítill, en hann, ásamt sterkum 2009-árgangi, skili sér í þessari ráðgjöf. Hafrannsóknastofnunin telur að mælingar á stærð stofnsins nú séu að líkum marktækari en mælingar undanfarinna ára.