Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að unnið hafi verið sleitulaust í rannsókn embættisins á Glitni frá því að húsleit var gerð á fjölmörgum stöðum á þriðjudag. Hefur rannsóknin gengið vel og marktækur árangur náðst. Lárus Welding, fyrrum bankastjóri Glitnis, er yfirheyrður í dag en hann mætti á starfsstöð sérstaks saksóknara klukkan 13 í dag.
Ólafur Þór vill ekki tjá sig um hverjir hafa verið yfirheyrðir í tengslum við málið. Hann segir rannsókn verði haldið áfram fram á kvöld en hvort yfirheyrslur fari fram um helgina segir hann að komi í ljós síðar. Við rannsókn af þessu tagi breytist hlutir hratt og taki rannsóknin mið af gangi hennar á hverjum tíma fyrir sig.
Hann segir klárt að línur hafi skýrst mikið en ekki sé hægt að upplýsa um rannsóknina á þessari stundu.
Lárus var einnig yfirheyrður í gær en þeir sem hafa verið yfirheyrðir í kjölfar umfangsmikilla húsleita lögreglunnar á þriðjudag eru, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, þau Bernhard Bogason, Bjarni Jóhannsson, Guðmundur Hjaltason, Guðný Sigurðardóttir, Jóhannes Baldursson, Magnús Pálmi Örnólfsson, Rósant Már Torfason, Þorvaldur Lúðvík Sigurðsson og Þórleifur Stefán Björnsson auk Lárusar Welding. Allt þetta fólk er núverandi eða fyrrverandi starfsmenn Glitnis, FL Group og Saga Fjárfestingarbanka.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa þeir Jón Ásgeir Jóhannesson og Pálmi Haraldsson ekki verið kallaðir til yfirheyrslu að svo stöddu. Jón Ásgeir mun hafa haft samband við saksóknara og boðist til að koma í yfirheyrslu, en var sagt að það þyrfti ekki. Jón mun svo hafa farið til London á miðvikudag.
Rannsókn saksóknara snýr að lánveitingum Glitnis til Stíms hf., Stoða hf. og FS 38 ehf. til hlutabréfakaupa og kaupa Glitnis á skuldabréfi útgefnu af Stím og kaupa á hlutabréfum í Tryggingamiðstöðinni. Seljandi skuldabréfsins var Saga Fjárfestingarbanki.
Af þeim sem yfirheyrðir voru í kjölfar húsleitanna á þriðjudag voru sumir handteknir en aðrir ekki. Þegar fólk er kallað til yfirheyrslu hjá lögreglu fær það annaðhvort réttarstöðu vitnis eða réttarstöðu sakbornings. Sá sem hefur réttarstöðu sakbornings hefur ríkari réttarvernd en vitni. Vitni þarf almennt að svara öllum spurningum, sem ekki snerta hagsmuni þess sjálfs eða nákominna. Sakborningur getur hins vegar neitað að svara öllum spurningum.
Það getur hins vegar komið ákæruvaldinu illa ef það kemur í ljós að maður, sem upphaflega var vitni, sé hugsanlega sekur. Áhöld eru um hvað má nota í dómsmáli af því sem hann sagði við lögreglu sem vitni.
Af þessum sökum getur það þjónað rannsóknarhagsmunum að
láta sem flesta hafa réttarstöðu sakbornings, því það kemur ekki í veg
fyrir málshöfðun síðar meir. Saksóknari hefur hins vegar ekki frjálsar
hendur með þetta, því sá á aðeins að hafa slíka réttarstöðu sem grunaður
er um afbrot, samkvæmt frétt Morgunblaðsins í dag.