Niðurskurður HSA skilar litlu

Nærri 200 manns mættu á fundinn í Egilsbúð í Neskaupsstað.
Nærri 200 manns mættu á fundinn í Egilsbúð í Neskaupsstað. mbl.is/Kristín Ágústsdóttir

Ný skýrsla Capacent um raunverulegan sparnað af áætluðum niðurskurði á starfsemi Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) var kynnt íbúum í Fjarðabyggð og á Austurlandi nú síðdegis. Skýrslan var unnin fyrir sveitarfélagið Fjarðabyggð. Nærri 200 manns mættu á fund um skýrsluna í Egilsbúð í Neskaupstað.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að sparnaður ríkisins af 466 milljóna niðurskurði verði í reynd einungis um 68 milljónir króna. Var það samdóma álit að í skýrslunni væri nokkuð varlega farið. Þar er ekki tekið tillit til þeirra þjóðhagslegu áhrifa og kostnaðar sem af hinum ætlaða sparnaði hlýst. Ekki heldur þeim tekjum sem t.d. sveitarfélögin á Austurlandi verða af komi til þeirra uppsagna sem við blasa.  

Í skýrslunni er lagt mat á raunverulegan sparnað við áætlaðan niðurskurð hjá HSA samkvæmt framlögðum fjárlögum. Skýrslan er kostuð af nokkrum fyrirtækjum í sveitarfélaginu. Það voru Arnar Jónsson og Friðfinnur Hermannsson frá Capacent, Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri Fjarðabyggð, Jón Björn Hákonarson forseti bæjarstjórnar og Gunnþór Ingvasson framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar sem kynntu skýrsluna og ræddu innihald hennar við fundargesti. 

Eftir því var tekið að engir þingmenn kjördæmisins létu sjá sig, né heldur ráðherrar eða fulltrúar úr heilbrigðisráðuneytinu. Það ollu sumum fundargestum vonbrigðum, en þannig þóttust menn geta lesið úr því að ekki væru kosningar á næsta leiti.  Tæplega tvö hundruð manns sóttu fundinn.

Verjum mannréttindi
Tilgangur með gerð skýrslunnar var að fá sveitarstjórnarmönnum og starfsfólki HSA og í raun samfélaginu öllu í hendur faglegt, hlutlaust og vel unnið vopn í þeirri erfiðu baraáttu sem framundan er við að verja almenn mannréttindi á Austurlandi.


Vinnum fyrir sómasamlegri þjónustu
Ljóst að búsetuskilyrði á Austurlandi rýrna frá því sem nú er og áhrifin verða mun víðtækari en virðist í fyrstu sýn. Við þetta ætla íbúar Austurlands ekki að una. Samfélagið hefur staðið þétt að baki sjúkrahúsinu, einstaklingar, fyrirtæki og hollvinasamtök.

„Við vinnum alveg fyrir því að hér sé rekin sómasamleg heilbrigðisþjónusta,“ sagði Gunnþór Ingvason og vísaði þar í það háa hlutfall útflutningstekna sem til verður í Fjarðabyggð.  Áberandi var í málflutning fundargesta  og sveitarstjórnarmanna að mikilvægt væri að sýna samstöðu í þessari erfiðu baráttu. Nú yrði að leggja allan hrepparíg til hliðar og berjast fyrir að halda því sem fyrir er.

Mikill árangur náðst í hagræðingu
Páll Björgvin Guðmundsson sagði að auk þess sem fram kemur í skýrslunni sé mikilvægt að hafa líka í huga þrjú önnur mikilvæg atriði. Þau eru sérstaða Austurlands í svo mikilli fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. Einnig sú staðreynd að sjúkrahúsið í Neskaupstað var byggt upp að miklu leyti af heimamönnum. Síðast en ekki síst að mikill og góður árangur hafi náðst í hagræðingu innan HSA síðastliðin tvö ár.

Á fundinum kom fram töluverð gangrýni á vinnuna á bak við þær tillögur sem frá ráðuneytinu koma, m.a. að ekkert hafi verið rætt við stjórnendur HSA.

Einar Rafn Haraldsson forstjóri HSA upplýsti fundargesti um að  hægt væri að spara um 100 milljónir innan HSA án þess að riðla kerfinu. En lengra væri ekki hægt að komast. Jafnframt hvatti hann menn til bjartsýni.

Ekkert mál að rífa niður, en erfiðara að byggja upp
Stefán Þorleifsson, fyrrverandi sjúkrahúsráðsmaður á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað (FSN), var einn fundargesta sem steig í pontu. Hann benti á þá einföldu staðreynd að það er ekkert mál að rífa niður svona starfssemi á stuttum tíma, en heilmikið mál að byggja hana upp á ný. Mannauður og reynsla skiptir þar miklu.

Stílbrot í kynjaðri hagstjórn
Elvar Jónsson bæjarfulltrúi benti á að ef til óbreytts niðurskurðar kemur að þá sé þar fyrst og fremst um að ræða niðurskurð á kvennastörfum á landsbyggðinni. Hann sagði að þetta hlyti að vera stílbrot á kynjaðri hagstjón.

Spörum mannslíf
Þórhalla Ágústsdóttir, hjúkrunarfræðingur á FSN, var ein fundargesta sem kvaddi sér hljóðs og þakkaði fyrir góða skýrslu. Hún sagði að það væri ljóst að ekki sparaðist mikill peningur af tillögum ráðuneytisins. En svo sagði hún að við gætum samt sparað mikið á öðrum sviðum: „Við getum sparað þjáningar og mannslíf.“

F.v.: Gunnþór Ingvarsson, Arnar Björnsson og Páll Björgvin Guðmundsson voru …
F.v.: Gunnþór Ingvarsson, Arnar Björnsson og Páll Björgvin Guðmundsson voru á meðal þeirra sem tóku til máls um skýrsluna. mbl.is/Kristín Ágústsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka