Tillögur vonandi í næstu viku

Guðbjartur Hannesson
Guðbjartur Hannesson Ómar Óskarsson

Guðbjartur Hannesson, heilbrigðisráðherra, segir vinnu við endurskoðun heilbrigðisþáttar fjárlagafrumvarps langt komna í ráðuneytinu. Hann vonast til þess að tillögur verði komnar fram í næstu viku.

Fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár var kynnt í síðasta mánuði, og hlutu niðurskurðaráform í heilbrigðisgeiranum óblíðar viðtökur, einkum á landsbyggðinni. Guðbjartur hefur áskilið sér rétt til að endurskoða þau áform, og er reiknað með að dregið verði úr niðurskurði framlaga til heilbrigðisstofnana. Ekki liggur hins vegar fyrir hvernig það verður gert.

„Þetta er bara langt komið uppi í heilbrigðisráðuneyti, það er búið að fara hringinn, það er verið að vinna nýjar tillögur. Þannig að við vonum að þær komi einhvern tímann í næstu viku,“ sagði Guðbjartur eftir ríkisstjórnarfund nú fyrir hádegið.

Nefnd á vegum ráðuneytisins hafi farið um allt land og rætt við forsvarsmenn heilbrigðisstofnana og leitað eftir viðhorfum þeirra.

Önnur umræða um fjáraukalagafrumvarp fer fram í næstu viku. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir jafnframt beðið eftir nýrri Þjóðhagsspá, sem væntanleg er á næstunni.

„Þá liggja fyrir allar forsendur sem þarf, til að endurmeta rammann sem við erum að vinna innan. Þannig að við eigum von á því að í næstu viku fari þau mál mjög að skýrast, svona innan hvaða ramma við lokum breytingatillögum við aðra umræðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert